Það sem maðurinn má, leyfist öðrum ekki. Þar er komin meginreglan í sambúð manns og dýra, að því er mönnum finnst. Hún hverfist um þá hugsun að stilltur og skynugur maðurinn eigi að heita villtum skepnum yfirsterkari. Svo einfalt sem það er.

En þegar betur er að gáð má velta því fyrir sér hvor er villtur og hvor er stilltur. Svona í raun og sann. Og hvor sýnir hinum meiri yfirgang og ofstæki. Eins er spurningin auðvitað sú – og hún er á stundum æði ágeng; hvor er skynugri?

Í nýsögðum fréttum var greint frá því að forkólfar Sveitarfélagsins Múlaþings hefðu óskað eftir því við Umhverfisstofnun að vöktun yrði hafin á hreindýrum vegna tjóns sem þau valda á bújörðum. Kanna ætti hversu miklar skemmdir þessi villtu spendýr væru að valda á túnum, girðingum, ökrum og skógræktarsvæðum.

Og ekki var látið hjá líða að taka dæmi í téðri frétt. Fyrir áratug hefði stór hreindýrahjörð nagað upp tré hjá bónda í Breiðdal. Sveitamaðurinn hefði engin önnur ráð en að siga hundum á skaðvaldinn og reyna með því móti að stugga dýrunum á burt. Að öðru leyti væru búhöldar á Héraði svo til alveg ráðalausir.

Í fréttinni var raunar látið hjá líða að segja frá því að landeigendur eystra fá vel yfir 100 milljónir á ári í tekjur af leyfum til að drepa hreindýrin.

Álíka kvartsárir eru búandmenn á Suðurlandi, en þar er að vísu vargurinn í líki álftar. Þær éti upp heilu hektarana frá jarðareigendum á örskotsstund. Ótækt væri að ekki mætti fækka álftinni. Auðvitað ætti mönnum að vera frjálst að skjóta hana, svo halda mætti aftur af óværunni.

Þegar betur er að gáð – og málið skoðað ofan í rótina, hafði viðkomandi bóndi tapað tveimur prósentum af ræktuðu landi sínu.

Fyrir norðan og vestan kvarta menn líka sáran yfir ágangi tófunnar, þeim svívirðilega svarki sem engu þyrmi. Og enda þótt þar sé komið eina náttúrulega og upprunalega landspendýrið á Íslandi sem ætti ef til vill að njóta ákveðinnar sérstöðu í lífríki landsins, stendur hugur margra landeigenda til þess að útrýma lágfótunni, þessum djöfullega dýrbít.

Engu skiptir þótt fyrir liggi litlar sem engar upplýsingar um fjárhagstjón af völdum refa. Samt eru yfir fimm þúsund melrakkar skotnir á ári. Og ríkið greiðir byssumönnum milljónir fyrir það í hverjum einasta mánuði.

Það er af því að maðurinn má. Sú skynuga skepna.