Mannvonskunni virðast engin takmörk sett. Ítrekað í gegnum söguna má finna kafla því til sönnunar. Sumir eru vondir og vita af því – aðrir villast í vonsku án þess að ætla sér það.

Vonskan birtist í ýmsum myndum en sárast svíður undan þegar börn og þeir sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér eiga í hlut.

Nýlega komst í hámæli aðbúnaður barna á vöggustofum Reykjavíkur þar sem börn voru vistuð um langan eða skamman tíma, fjarri ást og umhyggju á árunum 1949 til 1973. Fyrir umræðunni nú fara þeir Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson, Viðar Eggertsson og Árni H. Kristjánsson.

Í Fréttablaðinu um liðna helgi lýsir Árni reynslu sinni af vistinni á vöggustofu á liðinni öld. Það er átakanleg frásögn af grimmd sem virðist leiða af fáfræði og kreddum. Þar segir meðal annars: „Það sem enginn skilur er, hvernig gátu yfirvöld rekið skaðlega starfsemi sem stríðir gegn mannlegu eðli, heilbrigðri skynsemi og fyrirliggjandi rannsóknum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt hvernig hægt var að hunsa grátandi börnin. Á endanum hættu börnin að gráta. Það eru til heimildir um að börn hafi hætt, ómeðvitað auðvitað, að nærast, því þau gáfust upp. Þau fengu aldrei örvun, sem er grundvallaratriði fyrir þroska ungbarna. Það var beinlínis forboðið að sinna öðru en líkamlegum þörfum barnanna. Mörg urðu rang- eða tileygð vegna þess að þau sáu bara loftið úr rimlarúmunum og fengu enga skynörvun.“

Hann lýsir því jafnframt að þegar börnin sluppu úr prísundinni hafi mörg þeirra verið ótalandi og bjuggu við málhelti fram eftir aldri. Sum þróuðu með sér sitt eigið tungumál því enginn talaði við þau.

Saga vöggustofanna er svartur blettur. Og því miður er þetta ekki dæmalaust. Áður hafa komið upp mál sem tengjast niðurlægjandi og vanvirðandi meðferð á börnum og ungmennum, meðal annars í Breiðavík, Heyrnleysingjaskólanum, Kumbaravogi og víðar.

Sérstök rannsókn fór fram í kjölfar þess að dökk fortíð þessarar starfsemi komst í dagsljósið og á grundvelli hennar bauð ríkið fram bætur. Þeim málum er nú lokið þó aldrei verði bætt fyrir líf sem tapast eða gleði sem aldrei kviknaði í brjósti þeirra sem lentu í höndum fólks sem beitti harðræðinu.

En úr því þessi mál komu upp á síðari hluta fyrsta áratugarins sætir furðu að enn séu að dúkka upp mál eins og þau sem tengjast vöggustofunum illræmdu. Það er ekki vegna þess að ekki var reynt að koma frásögnum á framfæri. Það var vegna þess að ekki var hlustað.

Viðar Eggertsson, einn fimmmenninganna, reyndi hvað hann gat að segja þessa sögu fyrir nærri tveimur áratugum með þáttunum Eins og dýr í búri sem fluttir voru í útvarpi. Þó þættirnir hafi vakið einhverja athygli hljóðnaði umræðan fljótt.

Af hverju? Er mögulegt að sögurnar séu of óþægilegar til að menn leggi við hlustir? Getur verið að enn séu einhverjir að burðast með fortíð af sambærilegu tagi sem ekki hafa stigið fram í dagsljósið?

Samhliða því að rannsaka starfsemi vöggustofanna nú, þarf að tryggja að farvegur fyrir sambærileg mál sé greiður og hlustað sé á hinum endanum.