Enn einu sinni skal vísa úr landi barnafjölskyldu sem hingað kom eftir að hafa verið á flótta frá heimalandinu. Enn einu sinni horfum við upp á grátandi börn og kvíðafulla foreldra sem vita að svipta á þau því öryggi sem þau gætu búið við hér á landi til frambúðar.

Menn ættu að finna sanna gleði í því að veita fólki á flótta skjól. Ekki síst börnum. Það ætti að vera innbyggt í hverja einustu manneskju að það sé siðferðileg skylda að gera sitt til að stuðla að öryggi og hamingju barna. Börn eru nefnilega einhverjar merkilegustu dásemdir þessa heims.

Vill einhver raunverulega bera ábyrgð á því að svipta börn öryggi, gleði og von? Svarið við því á ekki að geta verið já. En já-ið er þarna einhvers staðar, eða hvaða önnur skýring er á því að skapað hefur verið hér á landi kerfi, sem úthýsir börnum á flótta?

Hin egypska sex manna Khedr-fjölskylda hefur dvalið hér á landi í rúm tvö ár. Nú stendur til að flytja fjölskylduna úr landi. Elstu börnin tala íslensku og lýstu í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 löngun sinni til að vera hér áfram og hræðslu við brottvísun. Foreldrarnir eru sömuleiðis fullir ótta og kvíða og glíma auk þess við veikindi.

Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Fréttir eins og þessar birtast með reglulegu millibili. Það eru fjölmiðlar sem minna á þær og birta myndir og viðtöl við fjölskyldumeðlimi. Vegna frétta fjölmiðla sjáum við fólk sem þráir ekkert meira en að lifa við öryggi og geta séð fyrir sér. Ekkert ætti að vera sjálfsagðara en að veita því tækifæri í nýju landi. En hvað eftir annað kemur nei-ið frá íslenskum stjórnvöldum. Sem betur fer hefur gerst að þau hafi látið undan þrýstingi frá almenningi. Miklu betra hefði samt verið ef þau hefðu sjálfviljug sent þau skilaboð að sjálfsagt væri að taka af hlýju á móti þessum fjölskyldum.

Hér á landi hefur verið skapað kalt og ómanneskjulegt kerfi sem sendir úr landi börn sem hér hafa dvalið í nokkurn tíma og aðlagast svo vel að þau vilja hvergi annars staðar vera. Því miður finnast hér á landi harðlyndir stjórnmálamenn sem sjá enga ástæðu til að stokka upp í kerfinu og gera það mannúðlegt. Vandinn, að þeirra mati, er að barnafjölskyldur á flótta hafa fengið of mikil tækifæri til að aðlagast hér á landi. Þessir stjórnmálamenn sjá lausn í því að vísa barnafjölskyldum á flótta sem allra fyrst úr landi, þannig að þær fái engin tækifæri til að aðlagast. Vilji þeirra er að tekið sé á móti sem allra fæstum sem lifað hafa í ótta. Þannig er þeirra mannúð. Sannarlega er ekki mikið í hana spunnið.

Vonarneista má sjá í því að lögmenn, sem hafa sanna mannúð að leiðarljósi, hafa tekið sér stöðu með barnafjölskyldum á flótta. Khedr-fjölskyldan býr að því. Hún er ekki alein, með lögmanninn Magnús Norðdahl. Hann segir að það að stjórnvöld skuli setja barnafjölskyldur í þessa stöðu sé í andstöðu við lög, siðferðilega rangt og ákaflega ómannúðlegt. Það er rík ástæða til að vera sammála honum.