Hug­myndin um mann­réttindi, að allt fólk fæðist með réttindi sem ekki verði af þeim tekin, varð til á seinni hluta 18. aldar. Henni var beint gegn eldri við­horfum sem gengu út á að sumt fólk fæddist með réttindi en annað ekki og að slíkt fólk gæti að­eins öðlast réttindi ef ein­hverju yfir­valdi þóknaðist að veita þau. Grund­vallar­hug­myndin er orðuð skýrt í sjálf­stæðis­yfir­lýsingu Banda­ríkjanna frá 1776: „að allir menn séu skapaðir jafnir, að skaparinn hafi gefið þeim á­kveðin réttindi sem ekki verða af þeim tekin“. Þetta var byltingar­kennd hug­mynd á sínum tíma og enn þá telst hún rót­tæk því langt er frá að það þyki sjálf­sagt að allir njóti sömu mann­réttinda.

Mann­réttindi virka ekki nema annað fólk viður­kenni að maður hafi þau og þessa viður­kenningu hafa ríkin tekið að sér að veita. Í fram­kvæmd eru mann­réttindi mis­jöfn eftir vilja og getu ríkjanna til að tryggja þau. Þessi munur raun­gerist á landa­mærum. Landa­mæri skilja á milli fólks með ólík réttindi. Á þeim er skorið úr um hvort fólk megi komast yfir þau og eiga mögu­leika á að njóta þeirra réttinda sem ríkið þeim megin við landa­mærin tryggir. Á landa­mærum er hægt að neita fólki um inn­göngu og um­sækj­endur um land­vist má beita ýmis­konar of­beldi sem ekki kæmi til greina að beita þegna við­komandi ríkis. Það má skerða frelsi þeirra með ýmsum hætti, meina þeim að vinna fyrir sér (út­lendingar geta sótt um „at­vinnu­leyfi“ sem inn­fæddir þurfa ekki fremur en þeir þurfa að sækja um hugsana­leyfi), neyða þá til að fara í læknis­skoðanir og flytja þá nauðungar­flutningum til annarra landa. Á landa­mærum getur fólk ekki búist við að mann­réttindi þeirra séu virt nema ríkið sem það kemur frá hafi samið um það við hitt ríkið.

Lengra erum við ekki komin. Enn þá búum við í heimi þar sem sumt fólk nýtur mann­réttinda sem annað fólk hefur ekki. Mann­réttinda­yfir­lýsingu Sam­einuðu þjóðanna er stefnt gegn þessu. Flest ríki heims viður­kenna hana í orði kveðnu og mörg tryggja þegnum sínum þau mann­réttindi sem hún skil­greinir og sum gott betur. Ríkin telja sig hins vegar að­eins bundin af bók­staf yfir­lýsingarinnar, ekki anda hennar eða inn­taki, að því er varðar mann­réttindi fólks sem ekki er þeirra eigin þegnar. Þegar ríki beita út­lendinga of­beldi sem þau geta ekki beitt sína eigin þegna þá líta þau svo á að þessir út­lendingar hafi ekki öðlast þau sér­réttindi sem borgarar ríkisins hafa. Það er út­breidd skoðun að þetta sé sjálf­sagt og eðli­legt.

Það er það ekki og yfir­lýsing Sam­einuðu þjóðanna er ó­tví­ræð um að „allir séu jafn­bornir til virðingar og ó­af­salan­legra réttinda“. Sið­ferðis­vitund okkar segir okkur það sama: það getur ekki verið sið­legt að sumum sé neitað um réttindi sem eru sjálf­sögð fyrir aðra.

Fyrir Al­þingi liggur nú frum­varp til út­lendinga­laga. Í því eru lagðar til breytingar á nú­gildandi lögum til að skapa laga­grund­völl fyrir of­beldi sem Út­lendinga­stofnun hefur beitt út­lendinga, en verið gerð aftur­reka með fyrir dóm­stólum. Nú­gildandi lög eru sið­ferði­lega ó­verjandi – enginn stjórn­mála­maður reynir að verja gildin sem þau byggja á, gildi haturs, ótta og tor­tryggni – og verði frum­varpið að lögum mun ís­lenska ríkið eiga enn auð­veldara en áður með að traðka á mann­réttindum út­lendinga.

Það ætti ekki að þurfa að heyja varnar­bar­áttu fyrir sjálf­sögðum mann­réttindum. Þeir þing­menn sem hyggjast styðja frum­varp dóms­mála­ráð­herra þurfa að svara því hvernig hægt er að mis­muna um mann­réttindi. Ef mann­réttindi eru á­sköpuð hvernig getur sumt fólk haft meira af þeim en annað?