Á dögunum vakti töluverða athygli að fyrrum innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, mótmælti fyrir utan breska sendiráðið í Reykjavík vægast sagt mjög ómannúðlegri meðferð á uppljóstraranum Assange. Einnig framkominni kröfu Bandaríkjamanna um framsal hans frá Bretlandi.


Það er vægast sagt undarlegt að í því landi sem talið er vera vagga frelsis og mannréttinda sé uppljóstrun stríðsglæpa litin alvarlegri augum á starfi blaðamannsins en þau myrkraverk sem Assange vakti athygli heimsbyggðarinnar réttilega á. Honum eru borin á brýn mjög alvarleg afbrot sem felast í því að uppljóstra stríðsglæpi Bandaríkjahers.


Að mörgu leyti er mál hans sambærilegt við meðferð nasista á þýska blaðamanninum Carl von Ossietzky. Hann var ritstjóri þýska tímaritsins Die Weltbühne sem útleggja mætti sem leiksvið eða ræðupallur heimsins. Með valdatöku nasista jókst gríðarleg hergagnaframleiðsla í Þýskalandi þar sem nánast öll ákvæði friðarsamninganna eftir fyrri heimsstyrjöldina voru þverbrotin.

Carl var jafnaldri Hitlers, fæddur 1889 í Hamborg, en naut fremur lítillar skólagöngu. Hann varð snemma blaðamaður og fjallaði í störfum sínum á róttækan hátt meðal annars um kvenfrelsi og friðarstefnu. Árið 1931 var hann dæmdur í fangelsi fyrir landráð eftir að hann hafði ljóstrað upp um leynilega vígvæðingu Þjóðverja í trássi við ákvæði Versalasamninganna. Með valdatöku nasista versnaði staða Ossietzkys mjög. Ekki féllst hann á að flýja land þrátt fyrir hvatningu vina. Hann gagnrýndi hin nýju stjórnvöld miskunnarlaust í ræðu og riti en brátt kom að því að hann var handtekinn. Frá 1933 til dauðadags 1938 sat hann í fangabúðum nasista. Talið er að banamein hans hafi mátt rekja til berkla sem hann fékk vegna afleits aðbúnaðar.


Árið 1935 var hann sæmdur Friðarverðlaunum Nóbels en stjórn nasista krafðist þess að Ossietzky afþakkaði þau. Hann neitaði að verða við þeim kröfum. Þá lýstu stjórnvöld Þriðja ríkisins yfir að þýskum borgurum væri með öllu óheimilt að veita Nóbelsverðlaunum viðtöku, enda væru þau hluti af gyðinglegu samsæri að þeirra sögn.


Mál Assange er vægast sagt mjög undarlegt. Hann og Carl von Ossietzky eiga það sameiginlegt að ljóstra upp skuggahlið stjórnvalda þar sem gegndarlaus hergagnaframleiðsla fer fram í skjóli myrkurs. Báðir eru þeir sviptir frelsi og látnir dúsa í fangelsi árum saman við illan kost.

Starf blaðamannsins er ekki alltaf auðvelt þegar hann vill vinna samviskusamlega í þágu allra. Blaðamaðurinn fær jafnvel ákúrur fyrir þegar honum hefur tekist að koma mikilvægum en viðkvæmum upplýsingum á framfæri sem alla varða. Stundum setur hann sig jafnvel í lífshættu ásamt blaðaljósmyndurum þar sem þeir eru við störf í löndum þar sem hergagnaiðnaðurinn hefur gert að vígvelli í græðgi sinni.


Vonandi ná mótmæli Ögmundar fyrrum ráðherra árangri. Það þarf að frelsa Assagne frá ógnaröflunum sem hergagnaframleiðendur hafa meira og minna í vasanum.