Þessa dagana eru þúsundir ungmenna að útskrifast og hvítu kollarnir áberandi! Sjaldan hafa nýstúdentar verið frelsinu jafnfegnir og í ár því ekki einatt er góð menntun í höfn heldur sér líka fyrir endann á kóvid. Lokaárið sem átti að einkennast af samveru, glaum og gleði með jafnöldrunum var að mestu eytt heima – og ekki í langan tíma hefur ein kynslóð fengið ofskammt af samveru við foreldra sína eins og sú sem nú heldur út í lífið.

Þessi ungmenni eru heppin að búa á Íslandi – enda skorum við Íslendingar hátt eða jafnvel efst á flestum alþjóðlegum listum yfir lífsgæði. Og þegar áföll dynja yfir er maður aldrei jafn stoltur af því að tilheyra þessari þjóð en þegar allir leggjast á eitt. En þó að hér sé gott að búa skiljum við þessa kynslóð eftir með risavaxin vandamál sem mín kynslóð hefði átt að leysa eða leita lausna við.

Hér grasserar enn kynbundið ofbeldi – siðferði í íslensku viðskiptalífi er ábótavant – skattsvik eru talin þjóðaríþrótt – við búum við flöktandi örmynt - arðinum af auðlindum er hróplega misskipt – svo ekki sé minnst á umhverfismálin sem mun heltaka líf okkar næstu áratugi.

En sjaldan hefur öflugri kynslóð Íslendinga komið fram og þetta unga fólk mun leysa þau verkefni sem við klúðruðum. En þetta unga fólk þarf að vita að hvern einasta dag skrifa þau í lífsins bók og þegar upp er staðið er orðsporið það eina sem þau taka með sér í gröfina. Peningar geta keypt þægindi en þeir kaupa ekki hamingju. Það skiptir því öllu að vera almennileg manneskja sem horfir sátt í spegil í lok hvers dags. Því ónýtu mannorði geta jafnvel bestu PR menn landsins ekki bjargað.