„Hve­nær kemur svo stelpan?“ var al­geng spurning sem ég fékk eftir að hafa komið þremur drengjum í heiminn með stuttu milli­bili og það ekki þrauta­laust. Lengi vel langaði mig að eignast fimm börn, en þar kom kyn ekki málinu við.

Síðast­liðna öld hefur fjöldi jarðar­búa skotist upp á met­hraða. Fyrr í mánuðinum rauf mann­kynið átta milljarða múrinn, sem er tvö­földun mann­kyns á þeim „ör­fáu árum“ sem eru liðin síðan ég fæddist. Þá varð mann­kynið tveir milljarðar árið 1927, en lengst af í mann­kyns­sögunni var það undir milljarði. Nokkrar á­stæður eru fyrir þessari gríðar­legu fjölgun.

Líf­aldur hækkaði sam­hliða fram­förum í lækna- og lýð­heilsu­vísindum – fyrir rúmri öld var meðal­aldur einungis um 50 ár. Í upp­hafi ní­tjándu aldar upp­götvuðu svo þýsku vísinda­mennirnir Fritz Haber og Carl Bosch leið til að beisla köfnunar­efni úr and­rúms­loftinu til mat­væla­ræktunar.

Upp­götvun þessi gerði bændum kleift að fæða þrjá milljarða manna auka­lega og er ein á­stæða þess að í stað hungur­sneyðar eru mörg ríki nú að kljást við of­fitu.

Á meðan við höfum nú á­hyggjur af hvað skal elda, frekar en hvort við fáum yfir­höfuð mat, berast milljónir tonna af köfnunar­efni frá fram­leiðslu­verk­smiðjum í ár, stöðu­vötn og strendur. Með því fjölgar þörungum ört, sem myndar mökk á vatns­yfir­borðinu. Við það kafna fiskarnir í vatninu og fuglarnir sem nærast á fiskum drepast líka.

Hið til­búna köfnunar­efni berst síðan í loftið og kemur niður til jarðar sem súrt regn – sem skaðar enn frekar líf­ríkið.

Börn eru dá­sam­legar mann­verur, en eftir að hafa lesið bókina „Pandora’s Lab“ eftir lækninn Paul A. Offit hef ég aldrei verið sann­færðari um að þrjú eru yfir­drifið nóg.