Einu sinni var sagt að stjórnmálaflokkar væru hornsteinn lýðræðis í landinu. Tilvist þeirra væri forsenda gagnrýninnar og heilbrigðrar þjóðmálaumræðu. Af þessum ástæðum hefur flokkum og félagasamtökum verið veitt ýmis vernd í lögum og fjármagn úr opinberum sjóðum. Innan flokkanna býr grasrót lýðræðisins í landinu og hana ber að styðja, vernda og efla. Það er hugsunin.

Félagafrelsið er af þessari rót sprottið og einnig tjáningarfrelsi einstaklinga og ákvæði í lögum sem eiga að tryggja öllum vernd fyrir stjórnmálastarf sitt og pólitískar skoðanir.

Það gerðist svo um svipað leyti fyrir rúmum áratug, að Íslendingar fóru að hata stjórnmálaflokka eins og pestina og að þjóðfélagsumræða fluttist úr miðstýringu flokka og fjölmiðla yfir á frjálsa samfélagsmiðla.

Þessi þróun hefur haft margvísleg áhrif á stjórnmálastarf í landinu. Stjórnmálaflokkum tók að fjölga gríðarlega, sem kann í fljótu bragði að þykja langsótt afleiðing flokkahatursins, en er þegar betur er að gáð fullkomlega eðlilegt. Fólk trúir því að það geti sjálft gert betur en vondu flokkarnir sem fyrir eru og stofnar nýjan flokk. Hið villta vestur frjálsra skoðanaskipta á netinu er hliðhollt þessari þróun og á sama tíma minnkar eftirspurn eftir formföstu málefnastarfi flokkanna.

Niðurstaðan er sú að flokkarnir hafa misst forskotið í umræðunni og eru meira í viðbrögðum en frumkvæði. Þeir leiða ekki umræðuna heldur elta hana. Við þetta bætist svo ótti stjórnmálastéttarinnar við kjósendur sem ganga algerlega sjálfala á samfélagsmiðlum og hafa vald til að slaufa stjórnmálafólki og stjórnmálaflokkum sé eitt feilspor tekið í trássi við almenningsálitið.

Íslenskir stjórnmálaflokkar eru í of miklum mæli að reyna að höfða til allra kjósenda í stað þess að standa á þeim grunni sem þeir eru byggðir á. Þeir forðast í lengstu lög að stuða fólk. Þetta er eflaust ekki með ráðum gert, nema markmiðið sé að halda öllum mögulegum stjórnarmynstrum opnum að kosningum loknum.

Dæmi um þetta er Samfylkingin og hennar þekktasta baráttumál: evran og aðild að Evrópusambandinu. Einhverra hluta vegna hefur flokkurinn gefist upp á sínu helsta stefnumáli. Það virðist horfið úr tungumáli flokksins; orðið tabú. Það er í þessu máli eins og mörgum öðrum engu líkara en málið hafi verið lagt á hilluna og þess sé beðið að almenningur taki það upp hjá sjálfum sér að skipta um skoðun. Það mun ekki gerast. Stjórnmálafólk þarf að afla baráttumálum sínum fylgis og tala fyrir þeim, jafnvel þótt á brattann sé að sækja. Flokkarnir þurfa að taka sér dagskrárvald en ekki framselja það til Facebook og Twitter.

Þessi tilvistarkreppa flokkanna veikir lýðræðið. Þeir hafa gefið frá sér grasrótarstarfið til kommentakerfanna og veikt þá valkosti sem kjósendur ættu að hafa þegar þeir ganga til kosninga. Við kjósum orðið bara um manneskjur en ekki málefni.