Frá sjö ára aldri hef ég verið stuðningsmaður Manchester United. Systir mín gaf mér treyju og ekki svo löngu síðar byrjaði ein mesta sigurganga sem nokkurt lið hefur stigið. Tveir áratugir liðu og varla kom tímabil þar sem titli var ekki hampað. Ég hef alltaf verið systur minni þakklátur fyrir að velja treyjuna rauðu í stað einhverrar annarrar. Þessi tilviljanakennda ákvörðun hennar reyndist mikill örlaga- og ánægjuvaldur í lífi mínu.

Nú er öldin önnur. Mitt heittelskaða félagslið hefur ekkert getað í átta ár og það hefur verið niðurdrepandi að fylgjast með því tapa fyrir smáliðum og berjast fyrir jafnteflum. Þessu hafði ég alls ekki vanist og fallið er hátt, get ég sagt ykkur. Mér líður eins og Liverpool-vinum mínum þar sem þeir sátu klesstir fyrir framan túbusjónvörpin sín í 20 ár og biðu eftir fyrsta Englandsmeistaratitlinum. Alltaf miðlungs en létu samt eins og þeir væru bestir. Óþolandi.

Eftir niðurlægjandi tap helgarinnar er næsta víst að vikan verður óbærileg og mikilvægast af öllu er að halda sig fjarri samfélagsmiðlunum, sem hafa verið teknir í gíslingu af stuðningsmönnum bítlaborgarinnar.

Það er vissulega merkilegt að maður skuli láta boltaspark í öðru landi, hjá liði sem maður hefur aldrei leikið fyrir, hafa áhrif á mann en íþróttir eru undarlegt fyrirbæri og ekki síður fyrir stuðningsmennina. Þeim, sem ekki tengja við þetta, finnst þetta eflaust kjánalegt. Ég skil það vel en það er erfitt að rökstyðja tilfinningar. Ég má þó til með að láta Möttu systur vita að ég kenni henni engan veginn um stöðuna sem upp er komin.