Ég hef aldrei borið mikla virðingu fyrir Al­þingi Ís­lendinga enda fylgst lengi með störfum þess. Einu sinni var ég reyndar í fram­boði til þings en náði ekki langt sem betur fer.

Brennu Njáls saga er kennslu­bók í lögum og laga­flækjum. Í stærstu deilu­málum sögunnar söfnuðu and­stæðar fylkingar liði lög­manna sem barðist með laga­krókum. Fræg eru við­skipti þing­manna í eftir­málum brunans að Berg­þórs­hvoli.

Þór­hallur Ás­gríms­son hrl. (nemandi Njáls) fylgdist grannt með út­úr­snúningum og ó­heiðar­leika lög­spekinganna í því máli. Hann var ekki fóta­fær sakir í­gerðar og veikinda. Þegar lög­manna­bullið náði há­marki spratt hann upp og stakk á í­gerðinni og varð al­heill. Hann hraðaði sér á þing­staðinn og batt enda á þvæluna með rögg­semi og á­kveðni.

Síðustu viku hefur ríkt upp­lausnar­á­stand á Al­þingi við Austur­völl. Nokkrir þing­menn, upp­fullir af eigin mikil­vægi, hafa haldið uppi mál­þófi með enda­lausu ræðu­haldi. Hver mann­vits­brekkan á fætur annarri hefur haldið yfir 100 (!!) ræður. Aðrir þing­menn hafa sýnt þessu fjasi lítinn á­huga og ekki mætt á þing­fundi. Þetta fólk er þó á á­gætum launum frá al­menningi í þessu leik­húsi fá­rán­leikans. Á sama tíma og sam­fé­lagið ólgar af verk­föllum og mála­ferlum og vaxta­hækkunum rífast raun­veru­leika­firrtir þing­menn við sjálfa sig.

Enginn Þór­hallur Ás­gríms­son er í sjón­máli til að stöðva þessa enda­leysu. Egill afi minn hefði kastað silfri yfir þing­heim til að sjá þennan hégóm­lega hóp fara að slást. Hefðu kosningarnar 1987 farið öðru vísi hefði ég kannski orðið þessi maður sem bjargaði þinginu úr trölla­höndum. Maður á mínum aldri má láta sig dreyma.