Ég hef aldrei borið mikla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga enda fylgst lengi með störfum þess. Einu sinni var ég reyndar í framboði til þings en náði ekki langt sem betur fer.
Brennu Njáls saga er kennslubók í lögum og lagaflækjum. Í stærstu deilumálum sögunnar söfnuðu andstæðar fylkingar liði lögmanna sem barðist með lagakrókum. Fræg eru viðskipti þingmanna í eftirmálum brunans að Bergþórshvoli.
Þórhallur Ásgrímsson hrl. (nemandi Njáls) fylgdist grannt með útúrsnúningum og óheiðarleika lögspekinganna í því máli. Hann var ekki fótafær sakir ígerðar og veikinda. Þegar lögmannabullið náði hámarki spratt hann upp og stakk á ígerðinni og varð alheill. Hann hraðaði sér á þingstaðinn og batt enda á þvæluna með röggsemi og ákveðni.
Síðustu viku hefur ríkt upplausnarástand á Alþingi við Austurvöll. Nokkrir þingmenn, uppfullir af eigin mikilvægi, hafa haldið uppi málþófi með endalausu ræðuhaldi. Hver mannvitsbrekkan á fætur annarri hefur haldið yfir 100 (!!) ræður. Aðrir þingmenn hafa sýnt þessu fjasi lítinn áhuga og ekki mætt á þingfundi. Þetta fólk er þó á ágætum launum frá almenningi í þessu leikhúsi fáránleikans. Á sama tíma og samfélagið ólgar af verkföllum og málaferlum og vaxtahækkunum rífast raunveruleikafirrtir þingmenn við sjálfa sig.
Enginn Þórhallur Ásgrímsson er í sjónmáli til að stöðva þessa endaleysu. Egill afi minn hefði kastað silfri yfir þingheim til að sjá þennan hégómlega hóp fara að slást. Hefðu kosningarnar 1987 farið öðru vísi hefði ég kannski orðið þessi maður sem bjargaði þinginu úr tröllahöndum. Maður á mínum aldri má láta sig dreyma.