Við fjórðu fyrir­töku kæru­máls Gráa hersins á hendur Trygginga­stofnun f.h. ríkisins 16. febrúar n.k. verður tekist á um, hvort visa eigi málinu frá dómi. Að ó­reyndu verður því ekki trúað að svo þýðingar­mikið mál fái ekki eðli­lega máls­með­ferð fyrir dómi. Með máls­höfðun þriggja fé­laga okkar í Gráa hernum er þess krafist að viður­kennt verði að Trygginga­stofnun ríkisins hafi verið ó­heimilt að skerða elli­líf­eyri þeirra sam­kvæmt lögum um al­manna­tryggingar og heimilis­upp­bót í til­vikum sam­kvæmt lögum um fé­lags­lega að­stoð vegna greiðslna sem þau nutu út skyldu­bundnum at­vinnu­tengdum lif­eyris­sjóðum. Saman­lagðar skerðingar þessar nema 56,9% af greiðslum um­fram 25.000 kr. á mánuði.

Skerðing greiðslanna fellur undir 72. gr. stjórnar­skrárinnar og 1. gr. 1 við­auka mann­réttinda­sátt­mála Evrópu og er vísað til nokkurra dóma Hæsta­réttar, Lands­réttar og yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu. Inn­grip í þessi réttindi hvort um sig eða bæði, þurfa að upp­fylla kröfur um lög­mæti, rétt­mæti og meðal­hóf, enda eru þau grund­völlur fram­færslu rétt­hafans, aftur stutt með dómum í Hæsta­rétti og Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu.

Grund­völlur fram­færslu

Skerðingin upp­fyllir ekki kröfur um meðal­hóf, þó fallist sé á stoð í lögum og ekki dregið í efa að inn­gripið stefni að því að draga úr út­gjöldum hins opin­bera vegna elli­líf­eyris og gera ríkis­sjóði betur kleyft að standa undir öðrum nauð­syn­legum út­gjöldum. Mjög ríkir al­manna­hags­munir verða að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að rétt­læta skerðingu á réttindum sem eru grund­völlur að fram­færslu fólks. Fáir ef nokkrir hags­munir tengdir eigna­réttindum geta talist ríkari en að fá notið greiðslna sem eru grund­völlur fram­færslu. Þá er hér um að ræða réttindi sem fólk hefur aflað sér með vinnu­fram­lagi í ára­tugi.

Þær væntingar um sam­spil skyldu­líf­eyris­réttinda og lög­bundinna al­manna­trygginga ganga eins og rauður þráður um for­sögu líf­eyris­sjóða­kerfisins, - að eftir­launa­fólk fái notið líf­eyris­sparnaðar síns án skerðingar á réttindum innan al­manna­tryggingar­kerfisins. Ful­ljóst er að hvorki laun­þegar né vinnu­veit­endur ætluðu að stofnun líf­eyris­sjóða ætti að vera til þess að létta byrðum af ríkis­sjóði, heldur að­eins til þess að tryggja ein­stak­lingum fram­færslu að lokinni starfs­ævi. Sá mikli þjóð­fé­lags­legi á­vinningur sem rekja má til á­kvörðunar um stofnun líf­eyris­kerfis árið 1969 kemur hins vegar að litlu leyti í hlut þeirra sem að þeirri á­kvörðun stóðu, en þess í stað í hlut hins opin­bera í formi lægri út­gjalda vegna greiðslna elli­líf­eyris úr al­manna­tryggingum.

Má þetta?

Hæsti­réttur hefur slegið þvi föstu að lög­gjafinn hafi víð­tækt svig­rúm til þess að grípa inn í eignar­réttindi þar sem stór­felld hætta ógni til­vist alls sam­fé­lagsins. Lög­skýringar að baki nú­verandi skerðinga benda til að ekki ráði annað mark­mið en að tak­marka út­gjöld hins opin­bera. Á undan­förnum fáum árum bendir staða ríkis­sjóðs alls ekki til þess að skerðing á elli­líf­eyri vegna greiðslna frá líf­eyris­sjóðum hafi helgast af brýnni fjár­hags­legri nauð­syn. Þá er bent á að út­gjöld ís­lenska ríkisins til elli­líf­eyris eru þau lægstu í hópi aðildar­ríkja OECD, eða um 2% af vergri þjóðar­fram­leiðslu í saman­burði við 7.5% hinna ríkjanna.

Skerðingin á elli­líf­eyri frá Trygginga­stofnun ríkisins er miðuð við til­tölu­lega fá­mennan hóp lands­manna, eða um 30.000 manns í hverjum mánuði. Þeir sem eiga sparnað sinn al­farið í sam­tryggðum sparnaði, lenda verst úti. Þeir sem eiga hluta réttinda í sér­eign, hafa at­vinnu­tekjur eða eiga eignir sínar í annars konar sjóðum eða öðru formi verða ekki fyrir skerðingum í jafn ríkum mæli.

TR hefur ekki sannað nauð­syn þessa

Trygginga­stofnun ríkisins hefur ekki sannað nauð­syn þess að gripið sé til þessara ráð­stafana gagn­vart þessum hópi og með mál­sókninni er einnig bent á fjöl­margar aðrar leiðir til þess að tak­marka út­gjöld ríkis­sjóðs án þess að lagðar séu ó­hóf­legar byrðar á af­markaða hópa ein­stak­linga. Þá liggur í augum uppi að auka má veru­lega tekjur ríkis­sjóðs t.d. með eðli­legum hagnaði til þjóðarinnar af nýtingu sam­eigin­legra auð­linda. Margs konar á­kvæði um eignir ein­stak­linga reka sig á hvort sitt horn. Lög­gjafinn vílar t.d. ekki fyrir sér að lækka líf­eyri ein­stak­lings sem á eignir í líf­eyris­sjóði, en gerir ekkert með líf­eyri ein­stak­lings í
sömu stöðu sem á eignir sínar í formi fast­eigna, lausa­fjár, við­skipta­bréfa, banka­inni­stæðna o.s.frv.

Af­leiðingin er t.d. sú að ein­stak­lingur sem fær 35.000 kr. á mánuði greiddar frá líf­eyris­sjóði sínum, fær lægri elli­líf­eyri frá Trygginga­stofnun en ein­stak­lingur sem sem tekur 350 þúsund kr. út af banka­inni­stæðu í hverjum mánuði. Sönnunar­byrði um að slíkur greinar­munur sé mál­efna­legur hvílir á Trygginga­stofnun.

Allt málið sýnir hvað vakir fyrir ríkis­valdinu og lög­gjafanum: Að spara sér út­gjöld til þessa mála­flokks úr ríkis­sjóði án nokkurra for­sendna og fella byrðar á
fá­mennan hóp lands­manna í skjóli flókinna og ó­út­skýrðra reglna og á­kvæða. Enda eftir all­nokkru að slægjast.

Í svari Ás­mundar Einars Daða­sonar, fé­lags­mála­ráð­herra við fyrir­spurn Ingu Sæ­lands á Al­þingi vorið 2019 kom fram, að ríkis­sjóður yrði af 37,6 milljörðum króna ár­lega ef öllum skerðingum al­manna­trygginga vegna líf­eyris­greiðslna eftir­launa­fólks yrði hætt.

Höfundur er einn for­vígis­manna Gráa hersins.