Þeir eru aumir, mennirnir sem í skjóli málfrelsis níða aðra að tilefnislausu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvað felst í níði. Það er ekki níð að gera grín að fólki í valdastöðu eða að nota sín sterkustu orð til þess að gagnrýna, þvert á móti, það er skylda okkar sem hafa til þess öflugan vettvang.

Það er heldur ekki níð að benda á það sem er satt og rétt, jafnvel þótt það kunni að fara fyrir brjóstið á landsþekktum trúbadorum.

Það er níð að nota valdastöðu sína eða öflugan vettvang til þess að draga í efa eða gera lítið úr tilvist heils þjóðfélagshóps. Það gerist þó það reglulega að við kippum okkur tæpast upp við það.

við segjum að málefni trans fólks séu flókin og þau þurfi að ræða í ró og næði, þar sem undirtextinn er augljóslega að það þurfi að ræða málefni trans fólks án aðkomu trans fólks, þau skilji ekki um hvað málið snýst.

Þetta er svo flókið mál. Þetta er svo flókið mál að okkur þykir ekkert eðlilegra en að tveir þekktustu grínistar samtímans noti eitt stærsta svið heims til þess að gera lítið úr trans konum. Á tyllidögum segjast þeir vinna við að ögra en það er ekki ögrun að viðhalda ríkjandi kynjakerfi.

Það er þjónandi, þeir eru í beinu þjónustuhlutverki gagnvart valdhöfum.

Þetta er ekki flókið mál, ekki einu sinni þegar það snýr að börnum. Trans börn eru til, við vitum það meðal annars vegna þess að trans fólk er til. Verndum trans börn, það virðist því miður vera ærin ástæða til þess.

Verndum trans börn og hættum að rökræða tilvist trans fólks. Það er það allra minnsta sem við getum gert.