Fyrir Alþingi liggur mál sem er 714. þingmál þessa þings. Mál sem ég tel skipta miklu fyrir samfélag okkar og framtíðarþróun þess. Í samantekt um málið á vef Alþingis segir: ,,Lagt er til að varsla ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota verði heimiluð. Þá er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um hvaða magn ávana- og fíkniefna getur talist til eigin nota.“

Ég hef áður á þessari baksíðu fjallað um mikilvægi þess að við sem samfélag hættum að nálgast vímuefnavandann sem glæp og förum að horfa á hann sem heilbrigðisvandamál. Slíka hugarfarsbreytingu má sjá í þessu máli enda er það heilbrigðisráðherra sem leggur það fyrir Alþingi sem er fagnaðarefni. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að börn sem verða fyrir alvarlegum áföllum í æsku eða glíma við félagslegan eða hegðunarvanda í æsku eru miklu líklegri til þess að verða vímuefnum, löglegum eða ólöglegum að bráð. Fangelsi landsins eru full af fólki með vímuefnavanda sem samfélagið brást í barnæsku með afskiptaleysi eða vanrækslu og fordæmir síðan.

Við eigum að hætta að greina vímuefni í áfengi og eiturlyf, í góð vímuefni eða slæm. Tala með fyrirlitningu um dópista og eiturlyfjasjúklinga en á sama tíma hampa drykkjurútum og áfengisneyslu. Það var framfaraskref þegar alkóhólismi var fyrir ekki svo löngu viðurkenndur sem sjúkdómur og hætt var að líta á alkóhólista sem veikgeðja aumingja sem þyrftu að gyrða sig í brók og hætta að drekka. Við eigum að gera það sama við einstaklinga sem haldnir eru fíkn í ólögleg vímuefni. Þess vegna á Alþingi að samþykkja mál nr. 714.