Eins og allir vita, samanstendur samfélagið af margvíslegum hópum, og er mér vel við flesta, enda fjölbreytileiki eitt af einkennum sköpunarverksins, náttúrulegur og eðlilegur.

Flest, sem mönnum er áskapað, er því fyrir mér eðlilegt, og vita flestir, að menn skapa sig ekki sjálfir og fá mest af því, sem þeir eru og einkennir, eðli og hneigðir, í vöggugjöf. Genin og erfðamengið ráða för.

Í síðustu viku skrifaði ég grein hér í blaðið undir fyrirsögninni „Yfirkeyrð gleði – fólk eins og við hin“. Í rauninni sagði þessi fyrirsögn strax tvennt: 1. Að mér fyndist „gleði“ hinsegin fólks stundum yfirkeyrð. 2. Að ég liti á hinsegin fólk og transfólk nákvæmlega eins og á alla aðra samfélagshópa; eins og okkur hin.

Ég færði rök fyrir punkti 1, sem ég hygg, að ekki séu fjarri lagi, enda hefur enginn andmælt þeim, og punktur 2 ætti ekki að styggja neinn, því hann staðfestir það sjónarmið mitt, að allir séu jafnir og ættu sama rétt.

Ég tók dæmi, þar sem ég nefndi aðra hópa, t.a.m. örvhenta, en ég tel einmitt að hópur örvhentra sé fyllilega sambærilegur við hinsegin fólk, en það skýrist af því, að örvhentir fæðast með hneigð til að beita höndunum til hreyfinga og athafna með öðrum hætti, en þorri manna, á sama hátt og hinsegin fólk hefur sín sérkenni.

Það er reyndar athyglisvert, að þessir hópar eiga ýmislegt sameiginlegt, eins og það, að vera sérlega listhneigðir.

Hvernig gat þessi, að mér fannst, hlutlæga og líffræðilega greining, farið fyrir brjóstið á fólki?

Hún gerði það samt greinilega. Ég fékk víða skömm í hattinn fyrir þessa grein, og var ég ásakaður um, að gera árás á hinsegin fólk og grafa undan réttindabaráttu þess.

Sérstaklega var ég gagnrýndur fyrir að skilja ekki vilja hinsegin fólks og transfólks til að vera „sýnileg“. Hér bera að skilja „sýnilegur“ sem greinilegur, áberandi.

Góð og gegn kona skrifaði mér, þegar ég sagði, að erfitt væri að rökræða við fólk, sem stjórnaðist af tilfinningum eða samúð: „Ómögulegt að rökræða við þig um þá tilfinningu þína að hinsegin fólk sé of sýnilegt.“

Hún taldi það, sem sagt, mikilvægt fyrir hinsegin fólk að vera „sýnilegt“.

Þessu svaraði ég þannig, að, ef ég væri ráðgjafi hinsegin fólks, myndi ég ráðleggja þeim þetta:

Forðist, að vera of sýnileg, láta of mikið á ykkur bera og berjið bumbur ykkar hóflega.

Því, með slíku eruð þið sjálf að skera ykkur úr, gera ykkur að sérstökum hópi.

Leggið heldur áherzlu á, að ganga inn í samfélagið og sameinast því, með hljóðlegum og mjúkum hætti, renna inn í það án hávaða og láta, en standið þó fast á rétti ykkar, ef/þegar á hann reynir.

Önnur góð kona sagðist ekki skilja mína nálgun; hvað ég væri að fara með þessum skrifum.

Svarið er, að ég tel hinsegin fólk bara venjulegt fólk, og sé enga ástæðu til að vera að hampa því sérstaklega. Nær hefði t.a.m. verið fyrir Reykjavíkurborg að byggja fleiri rampa fyrir hjólastólafólk, en að mála götur og stræti hinsegin fólki til heiðurs.

Þegar samfélagið er skoðað, má greina marga hópa, sem allir hafa sín sérkenni, vegna sinna erfðamengja og gena, en eiga samt fullan rétt á að falla inn í samfélagið og vera fullgildir samfélagsþegnar:

Það er ekkert réttlæti í því, að taka þarna einn hóp út úr og hampa honum sérstaklega af opinberum aðilum, sveitarstjórnum, skólum, kirkjum, fyrirtækjum o.s.frv. Sérstaklega finnst mér réttur opinberra aðila til þessa orka tvímælis.

Til að svara því, hvað mér gangi til með þessum skrifum, þá eru punktarnir þessir: 1. Að sýna fram á, að hinsegin fólk og transfólk er eins og við hin. 2. Það verður að gilda jafnvægi og jafnrétti milli allra hópa. 3. Hinsegin fólk er ekki að styrkja sína stöðu með því að vilja vera „sýnilegt“. 4. Kynferðislegir tilburðir hinsegin fólks í gleðigöngum og öðru eiga ekki við. 5. Kynferðismál ættu að vera einkamál manna.

Við lifum sem betur fer í frjálsu samfélagi, þar sem allir hafa rétt á að hafa skoðun og tjá hana. Ég er að nýta mér þann rétt, eins og ég geri oft, og vona ég, að menn geti metið þetta innlegg í umræðuna út frá skynsemi og yfirvegun, en láti ekki stjórnast af tilfinningasemi eða ógrundaðri samúð.

Hafi ég sært einhverja með þessum hugleiðingum mínum og skrifum, þá biðst ég fyrirgefningar á því.