Líf Sindra og Dúu hefur verið samtvinnað frá fæðingu enda foreldrar þeirra vinir og samgangur mikill. Bæði gengu menntaveginn og fóru að lokum út í frekara nám. Sindri fór ásamt kærustu til Svíþjóðar en þau komu heim aftur – Dúa fann hins vegar ástina í Danmörku og bendir fátt til að hún sé á heimleið.

Svo gerðist það í haust að bæði pörin festu kaup á sinni fyrstu fasteign, en við þeim blasir gjörólík framtíð. Dúa greiðir 1% vexti af sínu 40 milljóna láni þannig að mánaðargreiðslur eru um 100 þúsund en þar sem Sindri greiðir ríflega fjórfalt hærri vexti eru hans greiðslur 173 þúsund. Þegar upp er staðið mun Dúa hafa greitt 49 milljónir af sínu láni en íslenska parið 83 milljónir. Vaxtamunurinn er 34 milljónir íslenska parinu í óhag!

Þetta er gömul saga og ný en samt er okkur Íslendingum sagt að nú séu vextir hér mjög lágir og stýrivextir ekki lægri í heila öld. Engu að síður er þetta raunveruleikinn sem blasir við unga fólkinu og við virðumst vera tilbúin að láta enn eina kynslóðin ganga þessa þrautagöngu.

Hverju sætir? Af hverju gengur okkur Íslendingum oft illa að ræða stóru málin? Þegar ekkert eitt hefur eins mikil áhrif á kaupmátt okkar – og þar með talið fasteignakaup – og gjaldmiðillinn sem við búum við er hann ekki einu sinni á dagskrá. Af hverju er hann ekki efstur á blaði þegar kemur að því að ræða kaup og kjör í kjaraviðræðum? Þegar íslensk heimili þurfa að borga tugþúsundir í afborganir lána umfram þau heimili sem við viljum helst bera okkur saman við þá er eftir miklu að slægjast.

Börnin okkar gætu gert svo margt skemmtilegra í lífinu fyrir 34 milljónir – en að greiða vexti.