Forréttindablinda vísar til þess þegar við, mannfólkið, sjáum ekki að við njótum efnahagslegra og félagslegra forréttinda sem aðrir hópar hafa ekki. Það gerir okkur erfitt um vik að setja okkur í spor þeirra sem ekki njóta sömu forréttinda. Sem gerir það að verkum að við höldum bara að allir hafi það jafn gott og við.

Eða, ef við erum til að mynda leikritaskáld sem höfum búið við þau forréttindi öldum saman að störfin sem fylgja kynhlutverkinu okkar hafa ekkert verið að þvælast fyrir innblæstrinum, þá skiljum við kannski ekki alveg af hverju Þjóðleikhúsið hvetur konur sérstaklega til að senda inn ný leikverk. Þegar staðreyndin er sú að það er miklu minna framboð af leikverkum á íslensku eftir konur en karla. Á sama tíma er það líklega vilji stjórnenda þessa leikhúss þjóðarinnar að sviðsetja verk sem byggja á reynsluheimi beggja, nú eða allra, kynja. Það að gefa konum pláss útilokar hins vegar ekki karla. Þjóðleikhúsið hefur, eftir því sem ég best veit, ekki bannað körlum að senda inn ný leikverk.

Það er allt í lagi að skilja ekki allt. Opinn hugur og Google geta yfirleitt hjálpað okkur að svara spurningunum sem við höfum um lífið og tilveruna. Þá þurfum við heldur ekki að spyrja í mæðutón Má ekkert lengur?! Það er ekkert sem læknar forréttindablinduna jafn hratt og spurningar, svör, gagnrýnin hugsun og upplýsingar. Einu sinni var sagt að sannleikurinn gerði okkur frjáls. Í nútímasamfélagi er enginn einn endanlegur sannleikur, en upplýsingarnar geta í það minnsta frelsað okkur undan eigin forréttindablindu.