Þegar Bandaríkjamenn tala um lýðræðið sitt, eins og þeim hefur gefist ærið tækifæri til þessa dagana, þá tala þeir gjarnan um „lýðræðistilraunina“ eða „the democratic experiment“. Þegar múgur braust inn í þinghúsið og stöðvaði þingfund með dólgslátum, mátti lesa í New York Times að sá alvarlegi atburður væri atlaga að hinni bandarísku lýðræðistilraun.

Þetta orðalag á sér sögulegar og fræðilegar rætur, skilst mér, en fyrir leikmann á norðurhjara, í vindgnauðandi lýðræðissamfélagi sem hér vissulega er, hefur þetta tungutak skapað tilefni til þónokkurra vangaveltna á myrkum morgunstundum yfir kaffibolla og netvafri. Hvers vegna kalla þau lýðræðið tilraun? Er lýðræðið fyrir þeim hálfkæringur? Eru þau að máta það um stundarsakir? Hvað býr hér undir?

Eftir nokkur heilabrot finnst mér ég núna mögulega skilja hvað átt er við. Að kalla lýðræðið tilraun er ansi hreint mögnuð nálgun. Mér virðist hún til þess fallin að draga fram ýmis einkenni lýðræðis sem manni er hollt að minna sig á. Lýðræðið er mannanna verk. Lýðræðið er ófullkomið. Það er ekki sent okkur frá guði, eins og konungar héldu áður fyrr um þeirra stjórnskipulag. Lýðræðið er viðkvæmt. Það þarfnast ástundunar. Það þarfnast gagnrýni, þróunar og sífelldrar aðhlynningar. Lýðræðið er í raun lífsstíll sem hver og ein manneskja í lýðræðissamfélagi verður að vera reiðubúin að tileinka sér, hvorki meira né minna. Þetta felur meðal annars í sér að fólk verður að vera reiðubúið að lenda í minnihluta og jafnvel vera alla ævi í minnihluta. Það verður að vera reiðubúið að sætta sig við það að meginþorri annarra telji það ekki hafa á neinn hátt rétt fyrir sér. Það verður að vera reiðubúið til þess að leggja þó nokkuð á sig til þess að sannfæra annað fólk um að tilteknar leiðir, lausnir, fyrirkomulag og aðgerðir séu til bóta og aðrar ekki. Það verður að vera reiðubúið að afla sér upplýsinga og menntunar til þess að geta mótað sér afstöðu, sem er krafa sem lýðræðissamfélag gerir til borgara sinna. Fólk verður að vera til í að hlusta ríflega á aðra og velta vöngum yfir alls konar hliðum mála, jafnvel þótt það nenni því ekki. Lýðræðið er viðurkenning á því að mannleg tilvist er undirseld óvissu, breyskleika, mistökum og vandræðagangi. Að kalla lýðræðið tilraun er þess vegna svolítið flott: Í þessum aðstæðum sem við erum í sem mannfólk, þá er þetta skást. Að við gerum þetta saman. Við skulum prófa það, og helst sem lengst. Þessi nálgun byggir síðan á því, að meginþorri fólks í hverju samfélagi verður af einlægni að vera til í þetta dæmi, jafnvel þótt það fussi og sveii yfir eðlislægum bægslagangi lýðræðisins. Fólk verður að hafa sameiginlegan skilning á verkefninu. Með því stendur og fellur lýðræðið.

Hér stendur hnífurinn í kúnni. Einu sinni fékk ég stjörnukort frá Gunnlaugi stjörnuspekingi í afmælisgjöf. Þar var persónuleika mínum lýst miðað við stöðu himintunglanna á fæðingardegi mínum. Ég er sporðdreki. Ég bjóst því við hinu versta, auðvitað, því sporðdrekar eru jú almennt taldir siðleysingjar. Meginniðurstaðan var sú að ég telst vera, sem kallað er, stjórnsamur einfari. Það þótti mér þunglyndislegur dómur, en að sama skapi spaugilegur. Að vera bæði stjórnsamur og líka einfari er ávísun á tuldur í einveru, blót í slyddu og langar innhringingar í síðdegisþætti útvarpsstöðva. Þetta er uppskrift að besservisser. Ég er ekki viss um að stjörnurnar hafi haft fullkomlega rétt fyrir sér, því félagslíf hef ég stundað allverulegt um ævina líka, en því er ekki að neita að ég finn þessa tilhneigingu í sálartetrinu, til ráðríkrar einveru.

Hefði ég ekki tangarhald á þessari hneigð mætti ætla að lýðræðistilraunin væri mér einstaklega erfið. Meirihlutaræðið væri mér eitur í beinum og samræður ami. Og kem ég þá einmitt að því: Undanfarið hefur heimsbyggðin orðið vitni að því hversu viðkvæmt lýðræðið er. Bregðist samkomulagið um leikreglur þess er voðinn vís. Innrás hins æsta múgs, sem minnti mig á senur í bandarísku hrollvekjuþáttunum The Walking Dead þegar hópur afturganga gerir innrásir í byggingar, kom til vegna þess að til er vaxandi fjöldi fólks í lýðræðissamfélaginu Bandaríkjunum sem setur það ekki lengur í fyrsta sæti í nálgun sinni á samfélagið að þar ríki lýðræði. Það vill frekar að sín skoðun ráði. Það óttast hina og fyrirlítur. Það virðist reiðubúið að hætta tilrauninni og öllu því sem hún felur í sér. Þessi háski dregur fram réttmæti þess að kalla lýðræðið tilraun. Það sem getur brugðist þurfum við að vernda. Og spurning lýðræðistilraunarinnar er ævarandi, kynslóð eftir kynslóð, hér á landi sem annars staðar: Getum við það? Getum við stundað lýðræðið? Ég veit það ekki, en hitt sýnist mér kristaltært: Við skulum alltaf reyna.