Vissu­lega má oft satt kyrrt liggja en það er ljótt að ljúga. Það kann sjaldnast góðri lukku að stýra, en lífið er nú ekki ein­falt.

Í vikunni varð virðu­legur em­bættis­maður upp­vís að því að full­yrða um að til­tekinn hópur stundaði lygar sér til fram­dráttar, raunar lífs. Full­yrt var að fólk hefði logið sér til griða, enda um­hverfi hælis­leit­enda á Ís­landi furðu­lega harð­neskju­legt og raunar bara asna­legt, ef maður splæsir hálfri hugsun í málið. Nú getur maður í sjálfu sér ekki sagt að em­bættis­maðurinn hafi logið til um lygarnar en í öllu falli voru um­mæli hans ó­boð­leg og ó­sæmandi.

Það er engin á­stæða til að þakka manninum ó­sómann, en þó má segja að um­mælin dragi at­hyglina að þeirri aftur­för sem virðist vera að verða í réttinda­bar­áttu hin­segin fólks. Ég hef á­hyggjur af sam­fé­laginu okkar, sér­stak­lega þeim okkar sem ekki lifum veru­leika þeirra sem eru hin­segin og klöppum okkur sjálfum á bakið fyrir að kaupa regn­boga­fána einu sinni á ári í Gleði­göngunni. Við erum dá­lítið sjálf­um­glöð í meintu um­burðar­lyndi, finnst við jafn­vel dá­lítið hafa skilað okkar inn í bar­áttuna og að björninn sé unninn. Nú geti þessi hin­segin bara við­haldið árangrinum sem náðst hefur.

En þannig er þetta ekki. Það skiptir ekki máli hvort hópurinn er hin­segin, hafi ekki hvítan húð­lit sé fatlaður eða allt í senn – bar­áttunni lýkur aldrei og við öll verðum að taka þátt til að við­halda opnu, fjöl­breyttu og skemmti­legu sam­fé­lagi þar sem við öll getum notið okkar. Þannig að já, mætum í Gleði­gönguna, kaupum fánann, en um­fram allt – berjumst.