Ég hef oft verið gagnrýndur fyrir að tala of lengi og þegar ég segi frá atvikum þá á ég það til að hefja frásögnina löngu áður en raunverulegt efni sögunnar lítur dagsins ljós. Þess á milli tala ég ekki mikið og get þagað löngum stundum. Ég tala til dæmis ekki undir stýri, sem á það til að æra samferðafólk mitt í farþegasætinu. Einhvern veginn finnst mér það ekki þess virði að minnast á eitthvað, nema það verðskuldi langan tíma að segja frá því.

Af þessum sökum eru allra verstu aðstæður sem ég lendi í þegar ég rekst á einhvern á förnum vegi, sem ég kannast lítillega við en hef ekki séð í langan tíma. Við lítum hver á annan, náum augnsambandi og á sekúndubroti þarf að ákveða hvort hefja eigi samtal eða láta duga að kasta kveðju og arka svo hiklaust áfram.

Seinni leiðin er góð því sú fyrri leiðir undantekningalítið til eftirfarandi samtals: „Blessaður og sæll.“ „Sæll“. „Hvað segirðu, ekki allt gott að frétta?“ „Jú, jú, en af þér?“ „Jú, allt gott“ Svo tekur við ærandi og vandræðaleg þögn, þar sem báðir aðilar framkvæma dauðaleit að næsta heppilega kommenti.

Ég er hræðilegur í þessum aðstæðum og mér líður beinlínis illa.Það vekur því mína eigin sérstöku furðu að ég skuli hafa ákveðið að starfa undanfarin þrettán ár í háum skrifstofubyggingum, þar sem oft í viku ég kem mér í þá óbærilegu aðstöðu að vera innilokaður í lyftu með hálfókunnugu fólki – fullkomlega ófær um að opna munninn fyrir einungis örfáar sekúndur.