Lýðskrumarar átta sig ekki á að rökleysan sem vellur upp úr þeim er eins og pest sem dreifist um samfélög. Enda getur hún haft áhrif á það hvernig fólk kýs í kosningum. Lýðskrumarar, sem oft eru mælskir en illa áttaðir í salarkynnum rökhugsunar, stilla málstað sínum þannig upp að þeir standi með alþýðu gegn spilltri elítu. Góðu á móti illu.

Nýr þingmaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fer mikinn í lýðskrumi í pistli sem hún skrifaði ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Þau skrifuðu: „Bankarnir eru í raun baggi á samfélaginu, blóðsugur sem engu eira og gefa ekkert til baka. Við verðum að fara að horfa á hlutina í samhengi og hætta að skríða fyrir þeim, því þeir eiga ekki neitt inni hjá íslensku þjóðfélagi, sem þeir hafa mergsogið svo árum skiptir.“

Þvílík dómadagsvitleysa. Bankar eru nauðsynlegir efnahagslegum framförum en ekki afætur. Ef ekki væri fyrir banka yrðu landsmenn að eiga fyrir kaupum á bíl og heimili. Gangi okkur vel með það. Það væru reyndar einhverjir auðmenn reiðubúnir að lána en flestar lánveitingar yrðu smáar í sniðum og til skamms tíma til að dreifa áhættu.

Atvinnulíf, sem stendur undir samneyslunni, fær ekki blómstrað nema í samvinnu við þróað fjármálakerfi til þess að fjárfesta í uppbyggingu.

Lækka mætti vaxtamun innlendra banka – sem er um einu prósentustigi hærri en sambærilegra fyrirtækja á hinum Norðurlöndunum meðal annars vegna hárra skatta – með því að draga úr skattheimtu. Ásthildur vill aftur á móti hærri bankaskatt sem landsmenn þyrftu að standa undir.

Til að stuðla að lágum stýrivöxtum þarf að halda verðbólgu í skefjum. Mikilvægt skref í þá átt er að verkalýðshreyfingin semji um launahækkanir sem atvinnulífið getur staðið undir. Annars rýkur upp verðbólga og vextir.