Á laugardag verður kosið til sveitarstjórna um allt land. Rétt eins og stórmót í íþróttum eru kosningar til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti. Sjálfur hef ég þá bjargföstu trú að sveitarstjórnarkosningar séu meðal mikilvægustu kosninga sem okkur standa til boða því þá getum við haft hvað mest áhrif á nærumhverfi okkar. Samt hefur kjörsókn til sveitarstjórna verið töluvert lakari en þegar kosið er til Alþingis.
Það er því ástæða til að tala aðeins um lýðræði. Rétt okkar til að kjósa fulltrúa til að fara með völdin sem eru ein mikilvægustu mannréttindi sem nokkur manneskja getur öðlast. Staðan er því miður þannig að vindar frelsis og lýðræðis hafa farið minnkandi undanfarin ár.
Til er vísitala sem mælir lýðræði í heiminum (Democracy Index) en hún mælir stöðu þess í 167 ríkjum. Samkvæmt Wikipedia-síðu lýðræðisvísitölunnar fyrir árið 2021 var aðeins 21 ríki með fullt lýðræði en 53 ríki með skekkt lýðræði. 34 ríki voru blanda af harðstjórnar- og lýðræðisríkjum og 59 ríki töldust hrein harðstjórnarríki. Af þessum 167 ríkjum var og er Ísland í hópi ríkja þar sem ríkir fullt lýðræði.
Alvarlegra er að þróunin í heiminum hefur verið niður á við samkvæmt lýðræðisvísitölunni. Þess vegna eigum við að fagna því á laugardaginn að við erum í hópi þeirra 6,4% íbúa jarðar sem búa við fullt lýðræði. Við eigum að vera þakklát og brosa til þeirra sem leggja það á sig að bjóða fram krafta sína í stjórnmálum og veita okkur þannig valkosti, þó svo að okkur kunni að finnast þeir allir ómögulegir. Þess vegna er það borgaraleg skylda okkar að mæta á kjörstað og kjósa. Ef enginn frambjóðandi er nógu góður, þá skilar maður bara auðu. Kjóstu!