Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkur sem gildir til næstu tíu ára var samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær ásamt aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum. Hún snýst um að byggja upp traust um þær ákvarðanir sem eru teknar, efla upplýsingagjöf til íbúa og auka aðkomu þeirra. Lýðræðisleg, fagleg og vönduð umfjöllun um málefni bætir gæði ákvarðana sem færir okkur betri borg.

Meginmarkmið lýðræðisstefnunnar eru fjögur og endurspegla hringrás lýðræðislegra vinnubragða. Hlusta, rýna, breyta og miðla. Með þessu skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að styrkja lýðræðið í borginni, styðja við og stunda lýðræðisleg vinnubrögð og tryggja að íbúar geti haft áhrif á málefni borgarinnar.

Málefni sveitarstjórna er nærþjónustan. Það sem birtist íbúum í sínu daglega lífi. Þá er svo mikilvægt að hafa góða lýðræðisferla til að skapa vettvang fyrir hugmyndir íbúa um hvernig hlutirnir eiga að vera. Vegna þess að við kjörnir fulltrúar vitum ekki allt best. Íbúar þekkja sitt nærumhverfi og aðstæður best.

Lýðræðisstefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði frá hausti 2019. Þannig skipuðu sex fulltrúar stýrihópinn, jafn margir frá meirihluta og minnihluta í stað oddatölu sem venjan er, enda var lögð mikil áhersla á gott samstarf og sátt milli flokka. Samtal og samvinna einkennir vinnuna sem og afrakstur hennar. Drög að lýðræðisstefnu sem lágu fyrir við lok síðasta kjörtímabils voru einnig mikilvægt gagn við vinnuna.

Byggir stefnan á niðurstöðum umfangsmikils og metnaðarfulls samráðsferils sem lögð var áhersla á að væri aðgengilegur öllum óháð fötlun, stöðu og tungumálakunnáttu þar sem boðið var upp á víðtækt samtal um lýðræði og þátttöku í Reykjavík. Opið samráðsferli stóð yfir bæði við upphaf og lok vinnunnar, skipulagðir voru rýnihópar með slembivöldum íbúum borgarinnar, haldnir voru margir vinnufundir með starfsfólki í stjórnsýslunni, opinn fundur fyrir íbúa, opnir fundir með íbúaráðum, umsagnarferli í ráðum og nefndum sem og vinnustofa kjörinna fulltrúa.

Rauður þráður í gegnum aðgerðaáætlunina er aukið gagnsæi með meðal annars Gagnsjá Reykjavíkur, lýðræðisáttavita sem og bættu samráði vegna framkvæmda og viðhalds. Að auki er lykiláhersla á eflingu lýðræðislegrar þátttöku ungmenna með meðal annars stórauknu lýðræði í skóla- og frístundastarfi, lýðræðishátíð unga fólksins og að taka á móti skólahópum í Ráðhúsið.

Innan aðgerðaáætlunar er auk styrkingar núverandi lýðræðisverkefna að finna ýmsar róttækar nýjungar eins og íbúadómnefnd til að skera úr um ágreiningsefni, samræmd og einfölduð lýðræðisgátt á vefnum og regluleg borgaraþing með beinu samtali íbúa og borgarstjórnar.

Lýðræðisstefna Reykjavíkur er gagnsær og skýr rammi í kringum lýðræðið í borginni sem styður við aukið jafnræði og samræmdari vinnubrögð í kringum samráð. Lýðræðisleg vinnubrögð eiga ekki að vera breytileg eftir skoðunum eða áhuga þeirra sem halda utan um verkefni hverju sinni heldur skulu þau alltaf viðhöfð.

Við erum stolt af þessari fyrstu lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar og hlökkum til að sjá afraksturinn í formi meiri og markvissari þátttöku íbúa og betri ákvarðana sem meiri sátt ríkir um.