Hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt er hafin! Hún stendur yfir til 20. janúar 2021 og er söfnunin því opin lengur en áður og nú óskum við eftir enn stærri hugmyndum þar sem það er um tvöfalt meira fjármagn í pottinum í hvert sinn. Eitt af stóru verkefnum þessa kjörtímabils í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkur er að efla samráð og lýðræðisverkefni Reykjavíkurborgar. Hér eru stigin stór skref í þá átt, en þessi skref eru hluti af heildarendurskoðun á lýðræðisgáttum Reykjavíkur. Í vikunni gefst færi á að ræða lýðræðið í Reykjavík, það sem vel hefur gengið og það sem betur má fara, á opnum samráðsfjarfundi 25. nóvember um lýðræðisstefnu Reykjavíkur sem er í mótun. Skráðu þig á „Stefnumót við lýðræðið“ á reykjavik.is/stefnumot-vid-lydraedid til að taka þátt!

Hverfinu mínu hefur nú verið breytt á þann hátt að nú nær ferlið yfir tvö ár í senn, og gerir ráð fyrir meira samráði og mun meira fjármagni í hvert sinn, sem getur þá farið í stærri og betri verkefni. Með þessu móti gefst tími til að eiga aukið samráð við hugmyndahöfunda og íbúa hverfisins til að tryggja sem besta niðurstöðu og stuðla þannig að enn meiri ánægju með verkefnin sem komast til framkvæmda. Samhliða þessum breytingum hefur verið ákveðið að taka öryggis- og viðhaldsverkefni úr Hverfinu mínu eftir mikla hvatningu íbúa í þá veru.

Þær tillögur verða sendar á annan vettvang þar sem íbúar geta komið að forgangsröðun viðhaldsog öryggisaðgerða út frá heildstæðri nálgun. Þessar breytingar munu styrkja verkefnið Hverfið mitt og gera borgina okkar enn betri. Í þátttökulýðræði er útgangspunkturinn borgarinn og hans sjónarmið sett í miðjuna. Rannsóknir benda til þess að þar sem þátttökulýðræði og lýðræði er virkast eru líka öflugustu samfélög í heiminum, bæði út frá mannréttindum og efnahagslegum sjónarmiðum. Eflum lýðræðið, bætum ákvarðanatöku og aukum lífsgæði.