Sunnudaginn 20. Október n.k. eru sjö ár liðin frá því samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnaskrá. Lýðræðislegt ferli var að baki með eitt þúsund manna þjóðfundi sem fjallaði um áherslur fyrir nýja stjórnarskrá og 25 manna stjórnlagaráði kosið af þjóðinni, hafði lagt fram sínar tillögur. Tilraun Hæstaréttar til að ógilda þá kosningu er hneyksli og blettur á réttarsögunni.

Fjórir mánuðir – sjötíu ár.

Það sem var sérstaklega eftirtektarvert var að stjórnlagaráð fólks úr ólíkum stéttum víðsvegar að úr þjóðfélaginu var algjörlega einhuga um þær tillögur sem lagðar voru fyrir Alþingi. Auk þess tók það aðeins fjóra mánuði fyrir ráðið að fullgera tillögur að nýrri stjórnaskrá, sem er afrek. Fróðlegt er að bera það ferli saman við ítrekaðir tilraunir Alþingis , sem stóð í ríflega 70 ár, til að koma saman heilsteyptri nýrri stjórnaskrá, án árangurs.

Tillögur stjórnlagaráðs vöktu athygli víðsvegar um heim fyrir lýðræðislegt ferli og þær endurspegluðu raunar nýtt Ísland. Leiða má að því líkum að þær hefðu breytt ýmsu í þjóðfélaginu m.a. í þeim spillingarmálum, sem upp hafa komið síðustu árin, hefðu þær komist til framkvæmda,

Tillögurnar skerptu á skilum milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds og fólu í sér valddreifingu, aukið gegnsæi og meiri ábyrgð valdhafa. Aukið var svigrúm almennings til þátttöku í ákvarðanatöku, bæði með þjóðaratkvæðagreiðslu og aukinni aðkomu að þingmálum. Með lögfestingu þeirra væri Ísland komið í fremstu röð þjóða heims m.a.með beinni þátttöku almennings í mikilvægum málum. Tillögurnar fólu einnig í sér markviss ákvæði um skilyrðislausa eign Íslendinga á auðlindunum, sem skipt getur sköpum bæði varðandi fiskimiðin og aðra sameiginlegar náttúruauðlindir þjóðarinnar.

Svifust einskis og beittu öllum brögðum

Tilraun ríkisstjórnar minnar seinni hluta kjörtímabilsins til að lögfesta þennan nýja samfélagssáttmála sem þjóðin sjálf átti svo mikinn þátt í að skapa,mistókst. Ekki vegna þess að vilja vantaði hjá ríkisstjórninni, heldur vegna heiftúðugrar og óbilgjarnar stjórnarandstöðu, sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir svifust einskis í nær fordæmalausu málþófi og beittu öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nýr samfélagssáttmáli, sem samþykktur hafði verið með tveim þriðju hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, næði fram að ganga. Lýðræðið var fótum troðið.

Stjórnvöld sviku þjóðina

Þjóðin hefur nú verið svikin af stjórnvöldum um þessa nýju stjórnarskrá í sjö ár. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að færa þjóðinni þá heilsteyptu stjórnarskrá sem fólkið bíður enn eftir. Kannski á að samþykkja lítinn hluta hennar á þessu kjörtímabili m.a. um þjóðareign á landi. Hætta er á með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn verði valinn lægsti samnefnari og haldlítið auðlindaákvæði.

Það er ástæða til að þakka Stjórnarskrárfélaginu, undir öflugri forystu Katrínar Oddsdóttur,fyrir skelegga og þrautseiga baráttu við að vinna málinu brautargengi. Ég er sannfærð um að þjóðin mun ekki líða að stjórnmálamenn taki frá henni það lýðræðislega stórvirki sem þessi einstaki samfélagssáttmáli er, þannig að nýtt Ísland verði að veruleika.

Höfundur er fyrrverandi forsætisráðherra.