Allar helstu stjórnmálahreyfingar írsku þjóðarinnar, þar á meðal Fianna Fáil, Fine Gael og Sinn Féin, styðja eindregið aðild Íra að Evrópusambandinu. Írum hefur ekki orðið hnikað í þessu í þeim þvældu viðræðum sem nú hafa lengi staðið við Englendinga innan Stóra-Bretlands um útgöngu úr sambandinu, Brexit.

Írskir stjórnmálaflokkar mótuðust á tímum átaka og þjóðfrelsisbaráttu og þeir eru mótaðir af írskri ættjarðarást, sjálfstæðisbaráttu og þjóðernisstefnu. Það er sammæli meðal Íra að aðildin að Evrópusambandinu efli fullveldi þjóðarinnar og styrkir samfélag, efnahagslíf, menningu og þjóðerni þeirra. Svo ákafir fullveldismenn og þjóðhyggjumenn sem Írar eru færu önnur sjónarmið aldrei á milli mála af þeirra hálfu – ef þeim þætti slíkt málefnalegt eða sanngjarnt.

Sama verður sagt um Þjóðernisflokk Skota, Scottish National Party. Flokkurinn fer með heimastjórn í Skotlandi og ber ægishjálm yfir aðra stjórnmálaflokka að fylgi meðal almennings. Skotar eru mjög andvígir Brexit-stefnu Englendinga og telja sjálfum sér miklu betur borgið innan Evrópusambandsins áfram. Stuðningur þeirra við ESB-aðild er ein ástæða þess að Skotar ræða um þessar mundir um endurtekna þjóðaratkvæðagreiðslu um aukið sjálfstæði þjóðarinnar. Allir vita að þjóðerniskennd, ættjarðarást og fullveldishugur Skota eru einhverjar þær sterkustu stjórnmálakenndir sem fyrirfinnast á byggðu bóli.

Þessi afstaða Íra og Skota byggist á eigin reynslu þeirra af margra ára aðild að Evrópusambandinu. Það þarf ekki lengra að leita vitna um megineinkenni Evrópusambandsins en til þessara vina, frænda og nágranna íslensku þjóðarinnar.

Dæmin staðfesta að Evrópusambandið ógnar ekki eða hnekkir fullveldi eða þjóðmenningu aðildarríkjanna. Reynsludómur Íra og Skota er ótvíræður. Útganga Englendinga, Brexit, er vitaskuld enn önnur staðfesting á þessu sama. Þeir komast sína leið, jafnvel þótt klaufaskapur, innri sundrung, undirbúningsleysi og æðibunugangur hafi einkennt viðleitni þeirra. Evrópusambandið beygir sig fyrir óskum þeirra af ótrúlegri lipurð. Stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi fara sínu fram með hávaðalátum og komast upp með það. Fyrri ríkisstjórn Grikkja komst upp með ótrúlega ósvinnu lengi vel og fékk samt aðstoð, jafnvel þótt öðrum ofbyði. Og Evrópusambandið hefur hvorki vald né umboð til afskipta af skelfilegu framferði spænskra stjórnvalda í Katalóníu.

Þessi dæmi og fleiri staðfesta að stofnanir Evrópusambandsins lúta fullveldi þjóðríkjanna en drottna ekki yfir því.