Um síðustu helgi héldum við hjónin í leið­angur til að skoða vaska­skápa. Ekki leið á löngu þar til við römbuðum á smekk­legan sýningar­sal. Sölu­maðurinn átti fullt í fangi með að að­stoða annan við­skipta­vin og á meðan nýttum við tímann til að dást að hönnuninni – eða finna eitt­hvað að! Eftir að hafa þreifað á öllum sýnis­hornum og opnað allar skúffur og skápa tylltum við okkur. Ætluðum að bíða ró­leg. Allt þar til rann upp fyrir okkur að við vorum orðin al­ein eftir í sýningar­rýminu! Í grafar­þögn. Eftir að hafa beðið á­fram að­eins minna ró­leg í að því er virtist óra­tíma sam­mæltumst við um að fara þar sem ekki mikla þjónustu væri að fá. Það reyndist hins vegar ekki þrauta­laust. Sama hvernig við gripum í úti­dyra­hurðina, þá varð henni ekki haggað. Hurðinni hafði verið skellt í lás.

Í lífinu rekst maður stundum á luktar dyr. Þá eru tveir val­kostir í stöðunni. Að hamast á hurðinni og súpa hveljur yfir því að komast ekki sem leið liggur. Kannski vor­kenna sér svo­lítið yfir á­standinu. Eða leita annarra leiða og líta á það sem verk­efni eða ævin­týri.

Í sýningar­salnum göntuðumst við með það að við værum lík­lega hvorki bráð í falinni mynda­vél né hryllings­mynd og fórum því á stúfana að finna fólkið. Innst í salnum komum við auga á leyni­stiga sem leiddi upp í annað rými sem lá svo í enn önnur rými. Á leið okkar var neyðar­út­gangur en það var full dramatískt að brjótast út um hann. Á endanum opnaði þessi leið nýja vídd í heimi baðinn­réttinga og bauð upp á mun fleiri mögu­leika en litla sýningar­rýmið þar sem við byrjuðum. Og við fundum líka gal­opinn út­gang. Kannski svo­lítið eins og í lífinu sjálfu þegar maður fer ó­vænta lengri leiðina.