Verbúðin er stórkostleg sjónvarpsþáttaröð. Hún varpar enn á ný ljósi á að Vesturport, hópurinn sem stendur að þáttunum, er á heimsmælikvarða.

Auk þess minna þættirnir okkur á hve mikilvæg línuleg dagskrá er (eða að minnsta kosti vikuleg frumsýning á þáttum). Þegar fólk er samstíga í að horfa á skemmtilega þætti spretta fram fjörugar umræður sem farið er á mis við þegar hver og einn hámhorfir í sínu horni.

Þrátt fyrir að hagsæld þjóðarinnar megi að miklu leyti rekja til sjávarútvegs virðast furðu margir ekki skilja atvinnugreinina og mikilvægi hennar. Það endurspeglast meðal annars í því að 61 prósent landsmanna er andsnúið kvótakerfinu og einungis 20 prósent eru hlynnt því, samkvæmt skoðanakönnun Prósents sem fjallað var um í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum.

Hagsæld þjóða byggist á öflugum útflutningsvegum sem skapa gjaldeyri. Fiskveiðar hafa lengi verið þjóðarbúinu mikilvægar. Um allan heim eru fiskveiðar reknar með tapi og víða með ríkisstyrkjum. En ekki hér. Fiskveiðar eru því ekki djúp gullnáma sem þola mikla skattheimtu.

Raunar er sjávarútvegur hvergi skattlagður jafn mikið og hér á landi. Engu að síður horfir fjöldi manns til þess að skattleggja greinina enn frekar. Það liggur í augum uppi að við það mun draga úr fjárfestingu í greininni og við gætum misst fótanna í samkeppni við umheiminn. Það myndi auk þess draga úr slagkrafti íslenskra tæknifyrirtækja í sjávarútvegi því salan myndi minnka. Álögur á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar eru því óskynsamlegar.

Kvótakerfið er lykilforsenda þess að atvinnugreinin er arðbær og sjálfbær. Því var komið á vegna þess að of margir bátar voru að veiðum og því gekk reksturinn ekki upp. Í upphafi var kvóta úthlutað byggt á veiðireynslu. Þeir sem ekki stunduðu veiðar urðu því ekki af tækifærum. Útgerðir leystu af eigin rammleik úr offramboði á bátum með því að kaupa kvóta.

Fyrir tæpum 50 árum var kvótakerfinu komið á. Aflaheimildir hafa gengið kaupum og sölum til að auka hagræði í greininni. Flestir útgerðarmenn hafa því keypt kvótann á markaði.

Gætum okkur á lukkuriddurum sem misst hafa sjónar á stóru myndinni. Það er alls ekki sjálf­gef­ið að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur verð­i ávallt í fremst­u röð.