Við höfum flest gert okkur grein fyrir því að jörðin er eina at­hvarf okkar og auð­lindir hennar síður en svo ó­þrjótandi. And­rúms­loftið, vatnið, hafið og jarð­vegurinn, allt eru þetta undir­stöður lífs á jörðinni og það er okkar að tryggja að þær standi óla­skaðar að okkur gengnum. En mörgu okkar mannanna bjástri fylgir mengun, sem við verðum eftir fremsta megni að koma í veg fyrir.

Ný reglu­gerð sú fyrsta sinnar tegundar

Nú um ára­mótin tók gildi reglu­gerð sem hefur það megin­mark­mið að upp­ræta eða draga úr jarð­vegs­mengun frá hvers konar at­vinnu­starf­semi og koma í veg fyrir skað­leg á­hrif af hennar völdum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík reglu­gerð er sett á Ís­landi.

Mengun í jarð­vegi stafar helst frá iðnaði, land­búnaði eða úr­gangi. Heilsu manna og dýra getur stafað hætta af henni, til dæmis vegna upp­gufunar ó­æski­legra efna, mengaðra vatns­bóla eða beinnar snertingar við mengaðan jarð­veg. Þá geta bú­svæði líf­vera raskast, líf­fræði­legur fjöl­breyti­leiki minnkað og ó­æski­leg efni safnast upp í líf­kerfum.

Svæði með menguðum jarð­vegi kort­lögð

Hér á landi eru þó­nokkur svæði með menguðum jarð­vegi, svo sem frá eldri urðunar­stöðum, iðnaðar­svæðum, um­svifum setu­liðsins eða vegna ó­happa. Í reglu­gerðinni nýju er Um­hverfis­stofnun falið að halda skrá yfir svæði þar sem mengaðan jarð­veg er að finna, eða grunur leikur á að svo sé. Gert er ráð fyrir að skráin verði að­gengi­leg öllum fyrir lok næsta árs. Þetta getur skipt máli til dæmis við breytingar á skipu­lagi og raunar alla land­notkun. Til dæmis ef byggja á í­búa­byggð þar sem eitt sinn var sorp­haugur þá þarf að tryggja að svæðið hafi verið hreinsað með við­unandi hætti. Eins er mikil­vægt að þessum svæðum fjölgi hvorki, né að mengunin aukist.

Við­miðunar­gildi sett í fyrsta sinn

Í reglu­gerðinni eru í fyrsta sinn sett fram há­marks­gildi þung­málma og líf­rænna efna­sam­banda í jarð­vegi hér­lendis, á í­búa­svæðum annars vegar og at­vinnu­svæðum hins vegar. Eins er fjallað um jarð­veg sem er mengaður af al­var­legum sjúk­dóms­völdum, svo sem vegna hræja dýra sem smitast hafa af miltis­brandi eða sauð­fjárriðu. Mikil­vægt er að ekki sé hróflað við jarð­vegi á þeim svæðum og ein­mitt í því sam­bandi skiptir skráning Um­hverfis­stofnunar miklu máli.

Mark­mið reglu­gerðarinnar er ekki síður að skil­greina á­byrgð og verk­svið þeirra sem eiga að bregðast við, þegar og ef jarð­vegur mengast. Í megin­dráttum er það síðan svo að sá sem veldur mengun skal bera kostnaðinn sem af henni hlýst, í takti við mengunar­bóta­regluna.

Breytt hugar­far

Það eru ekki ýkja margir ára­tugir síðan það var við­tekin venja að brenna sorp á víða­vangi og hella spilli­efnum í niður­fallið – far­vegur fyrir þau kom fyrst fyrir um 30 árum. Víða í iðnaði skorti mengunar­varna­búnað og ýmis mengandi efni voru notuð án um­hugsunar. En nú vitum við betur. Það hafa orðið miklar breytingar á hugar­fari og mengunar­vörnum á undan­förnum ára­tugum. Þessi reglu­gerð er mikil­vægt fram­lag til frekari mengunar­varna á Ís­landi og löngu tíma­bær.