Það vakti at­hygli ný­lega þegar stjórn­sýslan aug­lýsti eftir ungum lög­fræðingi sem hefði þau Harvey Specter og Ally McBeal að fyrir­mynd. Þetta fólk er hetjur í amerískum lög­fræðinga­þáttum. Jafn­framt var aug­lýst eftir mann­eskju sem væri „stál­hnefi í silki­hanska“.

Það er skemmti­legt þegar ráðu­neyti fara áður ó­troðnar slóðir í leit sinni að hæfu fólki. Ég hefði reyndar viljað hafa aðrar fyrir­myndir í þessum ráðningum. Ó­neitan­lega hefði verið þjóð­legra að aug­lýsa eftir ung­mennum til starfa í ráðu­neytinu sem hefðu lesið yfir sig af laga­krókum í Njálu.

„Lýst er eftir lög­fræðingi sem vill líkjast Merði Val­garðs­syni og Þór­halli Ás­gríms­syni í Brennu-Njáls­sögu. Við­komandi þarf að vera klækj­óttur og kunna að skara eld að eigin köku. Við lýsum eftir silki­tu­ngu á lopa­sokkum.“ Með slíkri aug­lýsingu væri stjórn­sýslan að tengja nú­tímann inn í sagna­arfinn.

Síðan mætti halda á­fram: Þjóð­minja­vörður ætti að hafa Skalla­grím á Borg sem fyrir­mynd enda var hann fast­heldinn á gamalt drasl. Seðla­banka­stjóri mætti líkjast Agli afa mínum Skall­gríms­syni sem gróf sjóði sína í jörð.

Ráðu­neytið vill breyta í­mynd sinni. Þau Harvey og Ally eru út­lits eins og dúkkurnar Bar­bie og Ken. Þau eru bæði með BMI undir 19 með full­komnar tennur og vel hirt hár og taka sig sér­lega vel út á mynd með ráð­herrum Sjálf­stæðis­flokks.

Auð­vitað á ekki að rýna í próf­skír­teini og feril­skrá heldur skoða hversu mjög um­sækjandinn líkist glæsi­legum sjón­varps­stjörnum. Mark­miðið er að fylla ráðu­neytin af ungu og fal­legu fólki sem hvorki eldist né fitnar svo að hóp­myndin verði alltaf jafn glæsi­leg.