Þorskastríðið sem vannst endanlega 1976 tryggði Íslandi 200 mílna fiskveiðilögsögu. Þjóðin stóð saman sem einn maður og ávinningurinn var hennar. Nokkrum árum síðar stóðum við frammi fyrir öðrum vanda, ofveiði. Of mörg skip, of fáir fiskar. Fiskimiðin voru ekki lengur takmarkalaus hít heldur takmörkuð auðlind. Við þessu þurfti að bregðast.

1984 voru veiðar takmarkaðar og aðganginn að miðunum fengu virk fiskiskip samkvæmt veiðireynslu sl. þriggja ára. Kvótakerfið varð til og tilgangur þess var að vernda fiskistofna við Ísland. Enn voru samt of margir um hituna og krafan um kvótaframsal kom fram. Frjálsu framsali var ætlað að hagræða í sjávarútvegi með því að safna veiðiheimildum á færri hendur og árið 1990 samþykkti Alþingi lög þessa efnis. Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag settu þessi lög í andstöðu við Sjálfstæðisflokk.

Í þessum lögum segir m.a:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Heimilt er að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips.

Þetta hafði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, um lögin að segja:

Útvegsmenn sem fá framselda til sín aflahlutdeild af öðrum fiskiskipum vita að þeir eru ekki að fjárfesta í varanlegum réttindum. Það verð sem þeir eru tilbúnir að greiða fyrir slíkar heimildir hlýtur því að taka mið af þeim raunveruleika að Alþingi getur hvenær sem er breytt lögunum um stjórn fiskveiða, komist Alþingi að þeirri niðurstöðu að annað fyrirkomulag tryggi betur lífskjör í landinu.

Þessi skilaboð sjávarútvegsráðherrans náðu greinilega ekki langt því verðlagning aflaheimilda fór fljótlega upp úr öllu valdi. Augljóst var að menn töldu sig vera að kaupa varanlegan veiðirétt en ekki til eins árs í senn.

Síðar viðurkenndu Vinstri græn mistök við þessa lagasetningu og settu neðangreint í stefnuskrá sína:

Þrátt fyrir ákvæði laga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar hafa aflaheimildir verið markaðsvæddar, með þær farið sem ígildi einkaeignarréttar og þær safnast á æ færri hendur. Framhjá því verður heldur ekki litið að markmið núverandi laga um stjórn fiskveiða hafa ekki náðst og þróunin sumpart orðið í þveröfuga átt.


En sagan er ekki búin


Í lögum um samningsveð frá 1997 stendur:
Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips.

Þarna er aflahlutdeild fiskiskipa sérstaklega tilgreind og því nokkuð augljóst að veiðiréttur hefur verið veðsettur í trássi við lög.

Lögin eru skýr. Af þeim leiðir að breyting á árlegri úthlutun aflaheimilda er hverri ríkisstjórn fullkomlega heimil og skapar enga skaðabótaskyldu. Uppskrúfuð verðlagning aflaheimilda gegnum árin er engum að kenna nema útvegsmönnum sjálfum og samkrulli þeirra við fjármálastofnanir. Þetta samkrull hefur búið til forréttindahóp, svo sterkan að veiðiréttur á Íslandsmiðum er orðinn að erfðagóssi. Þessa sjálftöku þarf að stöðva og þó fyrr hefði verið. Nýju stjórnarskránni er ætlað að leysa málið.

Lýður Árnason, læknir og kvikmyndagerðarmaður

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir

Þorvaldur Gylfason hagfræði­prófessor