Mér var tjáð að flokkurinn minn hefði ekki komið vel út úr einhverju prófi í umhverfismálum sem ungt fólk í höfuðborginni stóð fyrir. Ég fékk fréttina þegar ég var uppi á afrétti að leita að þessum fáu rollum sem við sauðfjárbændur í Skagafirði erum enn að hokra með. Nú, nú, hugsaði ég og klappaði hestinum og horfði yfir fjalllendið í kringum mig. Erum við Miðflokksmenn þá umhverfissóðar, fólk sem skilur ekki mikilvægi náttúrunnar fyrir menn og málleysingja? Fólk sem er svo úr tengslum við umhverfi sitt að það skilur ekki aðkallandi baráttu gegn loftslagsvandanum? Virðist ekki breyta neinu þó við mörg hver í Miðflokknum höfum einmitt valið okkur starf til að vera sem mest úti í náttúrunni. En þeir vita þetta kannski betur fyrir sunnan.

Ég gat ekki stillt mig um að spyrja út í könnunina. Óljúgfróður maður benti mér á að flokkar fengju lægri einkunn ef þeir væru ekki langorðir um loftslagsstefnu sína. Þar fór það, hugsaði ég. Við Miðflokksmenn erum of stuttorðir! Þá benti annar mér á að stefna flokksins í málefnum flóttamanna og hælisleitenda hefði alveg farið með okkur. Nú, það kom mér spánskt fyrir sjónir, er þetta ekki sitthvor málaflokkurinn? En svo datt af mér andlitið þegar mér var tjáð að hörð andstaða okkar Miðflokksmanna gegn hálendisfrumvarpi umhverfisráðherra hefði endanlega gengið frá einkunn okkar. Ef við viljum ekki að fjögurra milljarða stofnun í Reykjavík stýri því hálendi sem við höfum verið vakin og sofin yfir í gegnum árin þá föllum við á loftslagsprófinu! Svo var mér öllum lokið þegar einkunnaspjaldið sýndi að Miðflokkurinn fékk núll í landbúnaði og matvælum en Viðreisn hæstu einkunn!

Ég ákvað að fara í stígvélin og fara út í fjós að moka skít. Það virtist viðeigandi.

Höfundur skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Norðvestur-kjördæmi.