Síðan í bernsku hef eg verið mikið úti í náttúrunni. Ein af fyrstu minningum mínum er frá þegar foreldrarnir mínir áttu hús í byggingu í Seláshverfi um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Töluvert land fylgdi eða alla leið efst á ásinn þar sem hátt í loft var súla sem byggð hafði verið í aðdraganda byggingar Landakotskirkju.

Eg hefi saknað súlunnar frá því hún var tekin niður fyrir nær hálfri öld. Eg var í æsku þrjú sumur í sveit og auk þess margsinnis á Akranesi þar sem eg dvaldi oft sumarlangt hjá ömmu minni. Átti eg einar mínar bestu unaðsstundir bernskunnar í friðsömu umhverfi þar sem hvers dags ys og þys var ekki að trufla kyrrðina.

Á dögunum var eg á gangi ásamt eiginkonu minni nokkru innan við Hafravatnsrétt í Mosfellsbæ. Það var yndislegt veður, hægviðri, sól og hið bjartasta veður. Þennan fagra haustdag mátti heyra örfáa fugla f lögra um unga skóginn sem þarna dafnar vel. Þegar við vorum komin upp fyrir brekkuna heyrðum við einhvern fjarlægan hvin sem varð hærri og hærri en sem betur fer hvarf. Þarna var svonefnt loftrýmiseftirlit á vegum Nató á ferð sem rauf kyrrð og fegurð náttúrunnar.

Eg hefi aldrei skilið þetta fyrirbæri loftrýmiseftirlit, sem á að vera nokkrar vikur á ári hverju hér á Íslandi. Þá koma hingað allmörg hundruð hermanna frá Nató-löndunum til að æfa sig að sagt er. Þessu fylgir mikill hávaði enda kæra fáar siðmenntaðar þjóðir sig um svona lagað í bakgarðinum hjá sér og vilja koma þessu yfir á einhverja aðra sem eru kannski uppnæmir fyrir hergagnaleikjum. Einhvern veginn tel eg að þetta skrautyrði sé notað til að fela annan tilgang. Er í raun og veru verið að prófa nýjan útbúnað við erfiðar aðstæður eins og býðst við Ísland, tækni sem kemur kannski að notum við hönnun á nýjum og varhugaverðari herflugvélum?

Hergagnabrambolt hernaðarveldanna er plága fyrir friðinn í heiminum. Í dag eru um 100 milljónir manna á flótta undan hernaðarátökum. Stríðsherrar kaupa mikið af vopnum fyrir þjóðarauð sem betur væri varið í f lest annað skynsamlegra. Í BNA er varið um 20 prósentum útgjalda vegna hersins en sáralitlu í þágu heilbrigðisþjónustu fyrir venjulegt fólk. Í BNA hafa yfir 200.000 látist vegna COVID-19 meðal annars vegna þess hve opinbera heilbrigðiskerfið í BNA er illa í stakk búið til að takast á við þetta risastóra verkefni. Við Íslendingar eigum ekki að ljá máls á því að landið okkar og lofthelgi þess sé tilraunastöð og æfingasvæði fyrir nýja hernaðartækni. Burt með þetta einskis nýta drasl sem hefur margan hryllinginn kallað yfir sig.

Þegar COVID-19 hefur lamað alla ferðaþjónustu heimsins meira og minna, þá er eins og þörf hergagnaframleiðenda sé hafin yfir alla varkárni. Svona brölti í þágu stríðsgróðans er ekki frestað um svo mikið sem mínútu. Gróðakvarnir hernaðarins skulu áfram mala gull í þágu þeirra sem sjá endalaus stríð sem sína einu hugsjón og féþúfu.

Höfundur er eldri borgari og leiðsögumaður í Mosfellsbæ.