Gunnlaugur H. Jónsson reiknar út í grein sinni „Þróun hitastigs í eina öld“ í Fréttablaðinu 13. febrúar að í Reykjavík muni ekki hlýna næstu hundrað árin nema um 0,6°C. Hann segir það leiða af mælingum Veðurstofunnar. Þar komi í ljós að síðustu hundrað ár hafi meðalhiti í Reykjavík aðeins hækkað um 0,36°C. Þetta sé óveruleg hlýnun og rúmist – að hans mati – innan staðalfráviks á hitastigssveiflum síðustu hundrað árin.

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti birti viðamikla skýrslu (yfir 200 síður) árið 2018 um loftslagsbreytingar. Skýrslan var gerð undir handleiðslu Veðurstofu af sérstakri vísindanefnd – hópi fræðimanna á ýmsum sviðum, sjá (https://www.vedur.is/media/loftslag/Skyrsla-loftslagsbreytingar-2018-Vefur-NY.pdf).

Þar er skýrt frá því hvernig manngerð hækkun á styrk gróðurhúsalofttegundar, einkum koltvísýrings og vatnsgufu, valdi smám saman greinilegri hlýnun jarðar og hvernig hún birtist á Íslandi í ýmsum myndum í náttúrunni. Skýrslan byggir á tiltækum gögnum á Íslandi, þá einkum Veðurstofunnar, en styðst einnig við niðurstöður skýrslna Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar, IPCC, árin 2013 og 2014.

Rétt er að benda á, að í ágripi skýrslunnar kemst Veðurstofan að allt annari niðurstöðu um veðurfarsbreytingar á Íslandi en Gunnlaugur: „Fram að miðbiki aldarinnar er líklegt að hlýni á landinu og umhverfis það og að árin 2046-2055 verði að meðaltali 1,3°C – 2,3°C hærri en árin 1986-2005. Umfang hlýnunarinnar ræðst aðallega af losun gróðurhúsalofttegunda. Ef losunin verður mikil gæti hlýnunin í lok aldarinnar (meðaltal áranna 2091-2100) numið meira en 4°C með ríflegum óvissumörkum þó.“

Sú fullyrðing Gunnlaugs í greininni að meðalhiti jarðar, sem er í dag 15 gráður, hafi ekki breyst frá árinu 1960 er ekki rétt. Samkvæmt tölum IPCC var meðalhitinn 13,9°C árið 1960 og hefur þá aukist um 1,1°C á 60 árum.