Í kvikmyndinni Dalalíf rakst önnur söguhetjan, Þór Magnússon, á góðglaðan athafnamann inni á skemmtistað. Athafnamaðurinn Jónas Reynir—kallaður JR—sat við snæðing og drakk kampavín. Hann drakk aldrei annað en kampavín, af því hann var nefnilega bindindismaður.

Eins og algengt er með mislukkaða athafnamenn sem eru á mörkum þess að vera svikahrappar þá uppveðraðist Þór mjög yfir því að sitja í návígi við betur heppnaðan athafnamann. Þar sem JR skóflaði í sig ríkmannlegum matnum upplýsti hann að hann væri í felum undan því að þurfa að sitja undir ræðuhöldum í Seðlabankanum. JR var ekki mikið gefinn fyrir ræður, en þeim mun meira fyrir aðgerðir og framkvæmdir. „I love it,“ sagði hann af innlifun þegar hann fann fjósalyktina af sessunaut sínum og sagðist mundu gefa aleiguna til þess að komast út í sveit og fá að moka skít.

Mislukkaði athafnamaðurinn sá strax tækifæri og skáldaði upp á staðnum hugmyndina um „Dalalíf,“ prógramm sem átti að gefa venjulegum borgarbörnum tækifæri til þess að hamast í gagnlegri sveitavinnu og tengjast þannig bæði náttúru og frumatvinnuvegum þjóðarinnar. Allt gegn hóflegu gjaldi, vissulega.

„Peningar eiga aldrei að skipta neinu máli,“ sagði JR með augun geislandi af áhuga.

„Alveg rétt hjá þér,“ samsinnti Þór. „Peningar skipta sko ekki neinu máli.“

„Af hverju segirðu að peningar skipti ekki neinu máli? Auðvitað skipta peningar miklu máli,“ kvað JR þá beint í kross við sjálfan sig.

„Það er alveg rétt hjá þér líka,“ samsinnti Þór aftur.

Í kófinu

Kófið er stórkostlega lýsandi heiti á því ástandi sem samfélagið þarf að koma sér úr. Við höfum verið í einhvers konar kófi – andlegu svitakófi, móki. Tíminn hefur liðið undarlega. Bæði hratt og hægt. Það sem gerðist fyrir tveimur mánuðum virðist hafa gerst fyrir áratug í öðrum heimi. Og samt þegar litið er til baka þá er eins og þetta hafi tekið af á örskotsstund.

Efnahagslífið er í einhvers konar móki og það sama gildir um sálarlíf margra. Samfélagið fór í einhvers konar biðstöðu. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa aðallega miðast við að hlífa fólki og fyrirtækjum undan stormi sem enginn veit hvort eða hvenær muni slota. Fólkið hefur margt horfið inn í sjálft sig, horft meira á Netflix og hangið í samfélagsmiðlum þar sem bæði bölsýni og kvíði hafa fengið að grassera eins og aldrei fyrr. Hvort tveggja er óeðlilegt ástand sem verður að linna. Samfélög og manneskjur eru ekki gerðar til þess að bíða endalaust eftir því að lausnirnar birtist, þokunni létti eða veðrinu sloti. Engum líður vel í kófi.

Líklega hefur hinum sætkennda JR liðið einhvern veginn þannig á barnum; hann var í einhvers konar móki, sem hann var að reyna að losna út úr. Honum fannst eins og himinninn væri að lokast yfir honum þrátt fyrir alla velgengnina. Ræðurnar í Seðlabankanum sem hann var að fela sig frá hafa líklega lagst yfir alla hans tilveru eins og búið væri að leggja sementspoka á bringuna og hann næði varla andanum. Það sem hann þráði var að komast í ferskt loft—með fjósalykt, og fá að moka skít og reka niður staura.

Og það eru heldur ekki mörg dæmi um hamingjusamari menn á hvíta tjaldinu en Sigga Sigurjóns í hlutverki JR að reka girðingarstaura með berum höndum lengst ofan í jörðina á blíðviðrisdegi í íslenskri sveit, algjörlega laus við lognmolluna.

Úr kófinu

Kófinu verður að linna. Þótt að sumu leyti sé alveg hárrétt hjá JR að peningar skipti engu máli í því samhengi þá verður ekki fram hjá því litið að hann hefur algjörlega rétt fyrir sér þegar hann segir að peningar skipti einmitt mjög miklu máli. Það er undir okkur sjálfum komið, hverjum og einum og í hópum, að gæta að því að kófið valdi ekki of miklum andlegum skaða. Ráðin við því kosta yfirleitt ekki mikla peninga, þótt þau krefjist fyrirhafnar.

En hagkerfið keyrir á peningum. Það er orðið tímabært að þeir peningar sem settir eru út í hagkerfið þjóni þeim tilgangi að koma samfélaginu aftur almennilega í gang—ekki í að bíða af sér ástandið. Það væri til dæmis áhugavert að eyða frekar 30 milljörðum í að senda háar ferðaávísanir til einstaklinga heldur en að eyða sömu upphæð í uppsagnarfresti hjá verkefnalitlum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Peningar geta haft mikil áhrif—til góðs eða ills. Úr því ríkið ætlar að taka að sér að eyða ævintýralegum fjármunum í að styðja atvinnulífið, þá ætti að nota þá í anda þess sem segir í ljóði Hannesar Hafstein um storminn og láta þá lífsanda starfandi hvarvetna vekja.