Áramótaboðskapur forsætisráðherra og formanna samstarfsflokka hennar var án nýmæla, án stefnu og alveg laus við leiðsögn fyrir atvinnulíf og launafólk.
Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að í pólitík væri loftið fullt af ræðum og öfugt. Þetta hefur sem sagt hent áður. En það kemur meira að sök þegar stór mál blasa við, sem kalla á skýra stefnu og ákvarðanir.


Það athyglisverðasta


Mesta athygli vakti þetta:
Forsætisráðherra hafði ekkert að segja um samstarf Íslands við aðrar þjóðir.
Forsætisráðherra boðaði engar aðgerðir til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
Forsætisráðherra átti ekki efni í eina setningu til að lýsa í hverju kjara- og vinnumarkaðsstefna ríkisstjórnarinnar væri fólgin.
Forsætisráðherra nefndi enga tiltekna aðgerð í loftslagsmálum, sem hrint yrði í framkvæmd á þessu ári.
Forsætisráðherra greindi ekki frá neinum áformum um að ákvarðanir yrði teknar á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins um nýjar virkjanir til orkuskipta og nýsköpunar.
Forsætisráðherra lýsti engum hugmyndum um hvernig ná mætti sátt í sjávarútvegi á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins.
Forsætisráðherra nefndi ekki eina tiltekna aðgerð til lausnar á vanda Landspítalans á þessu fimmta ári stjórnarsamstarfsins.


Pólitík og markmið í tveimur löndum


Ekla á starfsmönnum, einkum hjúkrunarfræðingum, hefur árum saman verið einn helsti vandi Landspítalans.
Þegar nýtt kjörtímabil hófst í haust var þessi vandi meiri en þegar sama ríkisstjórn setti heilbrigðismálin í forgang fyrir fjórum árum.
Nú um áramótin svaraði forsætisráðherra því einu til að þetta vandamál væri alþjóðlegt. Heilbrigðisráðherra hefur sagt að á fimmta ári stjórnarsamstarfsins verði kallað eftir hugmyndum að lausn frá forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.
Það er rétt hjá forsætisráðherra að þessi vandi er ekki sér íslenskur. Horfum þá til Danmerkur. Þar situr stjórn Sósíaldemókrata.
Í áramótaávarpi sínu lét danski forsætisráðherrann ekki duga að nefna að fjármunir hefðu verið eyrnamerktir því verkefni að fjölga hjúkrunarfræðingum. Hún greindi einnig frá því að það tölulega markmið hefði verið sett að fjölga þeim um eitt þúsund.
Þetta er á miðju þriðja starfsári dönsku stjórnarinnar.


Pólitík og kerfi í tveimur löndum


Í þessu samhengi gerði danski forsætisráðherrann stjórnkerfið einnig að umtalsefni af því að henni finnst hægt ganga og sagði þetta:
„Myndin er sú sama í stórum hluta opinbera kerfisins. Allt of mikill tími fer í ferla, skrifræði, eftirlit og yfirlit.“
Síðan ræddi hún ákveðnar hugmyndir um valddreifingu til að ná markmiðunum. Danska stjórnin telur sem sagt nauðsynlegt að taka á kerfinu.
Þegar ríkisstjórn Íslands settist niður eftir kosningasigur ákvað hún það eitt, sem hönd er á festandi, að stækka kerfið og fjölga ráðuneytum um 20 prósent og ráðherrum um 10 prósent.
Það er umframeftirspurn eftir ráðherrastólum, ráðuneytisstjórastöðum og skrifstofustjórastöðum en hörgull á hjúkrunarfræðingum. Það vafðist ekki fyrir ríkisstjórn Íslands hvort kerfisvandamálið væri léttara að leysa.
Þar við situr á fimmta starfsári hennar.


„Er ekki bara best að skrifa skýrslu?“


Frá því að stjórnarsamstarfið hófst fyrir rúmum fjórum árum hefur ekkert gerst í orkumálum. Orkumálaráðherrann segir nú að fimmta starfsárið muni hefjast með samtölum til sátta og síðan komi skýrsla í fyllingu tímans.
Á síðasta kjörtímabili gerðist lítið annað í sjávarútvegsráðuneytinu, fyrir utan lækkun veiðigjalda, en að sérfræðingum var falið að skila skýrslu um sjávarútveginn. Hún var birt í vor sem leið, vönduð og yfirgripsmikil.
Niðurstaðan var skýr: Stjórnkerfi fiskveiða er þjóðhagslega hagkvæmt og við greininni blasa mörg sóknarfæri.
Það féll utan við starfssvið nefndarinnar að fjalla um pólitísku ágreiningsefnin.
Stjórnarflokkarnir gáfu út endurbættan stjórnarsáttmála á dögunum. Þar birtist sú snjalla hugmynd að á þessu fimmta samstarfsári þeirra skipi sjávarútvegsráðherra nefnd til þess að skila skýrslu um niðurstöður nefndarinnar frá í fyrra.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa ekki staðið hlémegin í fylkingu vina ríkisstjórnarinnar. En engu er þó líkara en þeirri skörpu málafylgjukonu, sem veitir skrifstofu þeirra forstöðu, hafi þótt nóg um. Hún setti í yfirskrift áramótagreinar sinnar:
„Er ekki bara best að skrifa skýrslu?“