Eru það ekki mannréttindi að lifa í umhverfi sem er ekki heilsuspillandi? Hér á Íslandi deyja margir vegna öndunarfæra- og lungnasjúkdóma sem má rekja til mengunar í andrúmsloftinu. Þetta er mjög skuggalegt.

Undanfarnar sex vikur var frekar óvenjulegt veðurfar: Stillt og fallegt frostveður dag eftir dag. Snjórinn kom rétt fyrir jólin og varð áfram. Snjómokstur bæði hjá bæjarstarfsmönnunum og íbúunum var á dagskrá, ókeypis líkamsrækt. En svo fundu margir sem stunda útivist fyrir slæmsku í öndunarfærum. Ég sem skrifa þetta er venjulega mjög heilsuhraust en er búin að glíma við eymsli í hálsinum og slímmyndun í lungunum síðustu vikurnar. Þegar það koma svo upplýsingar frá loftmælingunum á höfuðborgarsvæðinu er maður ekki lengur í vafa: Hér fóru viðmið um ásættanlegan mengunarstaðal margoft yfir mörkin og vel það. „Fólki sem er viðkvæmt er ráðlagt að halda sig heima“ er sagt í fréttum. Og sökudólgurinn er auðvitað veðrið. „Það vantar rokið til að blása loftmengunina burt.“ Skrítið að menn séu ekki að hugsa um uppruna mengunarinnar.

Ef við skoðum þetta nánar þá ættum við að breyta svona ýmsu í okkar daglegu venjunum.

Byrjum á nagladekkjunum, sem eru flesta daga ársins alveg óþarfi, alla vega á höfuðborgarsvæðinu. Góð vetrardekk gefa miklu betra grip í snjó og slabbi, og í þeim fáum tilfellum þegar göturnar eru ísilagðar gæti maður athugað aðra ferðakosti, til dæmis að nota strætó. Strætisvagnakerfið er að vísu ekki gallalaust, sérlega ekki fyrir þá sem nota slíkan ferðakost sjaldan. En það má læra á þetta.

Margar ferðir sem menn fara á bíl væri hægt að labba. Bara klæða sig vel og fá sér heilsubótargöngu. Það er miklu skemmtilegra en að hamast á hlaupabretti í líkamsræktarstöðvunum. Fáránlegt að sjá ungt og hresst fólk koma akandi á bíl, einungis til þess að ganga á staðnum innan um annað svitnandi fólk. Auðvitað er allt gott um það að segja að menn stunda líkamsrækt og styrkja skrokkinn, en þegar líkamsræktarstöðvar eru í göngufæri mætti hita upp með því að ganga eða skokka þangað.

Ég ætla að taka hér fram að ég er komin á áttræðisaldur, en er búin að græja mig vel upp fyrir veturinn: Góður skjólfatnaður, göngustafir og mannbroddar eru góð fjárfesting til að ganga úti í alls konar veðrum. Það er bíll á heimilinu en hann má hvíla sig þegar ekki er nauðsynlegt að nota hann. Svo nenni ég einfaldlega ekki að skafa rúðurnar fyrir akstur í einhverja stutta vegalengd sem er vel hægt að ganga.

Ég verð mjög skapvond þegar ég sé alla þessa bíla í lausagangi. Menn setja fararskjótann í gang löngu áður en lagt er af stað einungis til þess að geta fengið sér sæti í vel upphituðum bíl. Og láta bílinn malla á meðan farið er út í búð. Ekki hefur mér reynst vel að tala við fólkið um svona lagað, yfirleitt fékk maður afar leiðinleg viðbrögð. Mikið er þá talað um afskiptasemi, frelsi til athafna og mannréttindi að geta hagað sér einmitt svona. En hvar eru mín mannréttindi að krefjast hreins og ómengaðs lofts til að anda að mér?

Í lokin ætla ég að minnast á að reglur og eftirlit í sambandi við notkun á bílum og nagladekkjunum er alls ekki góð. Mengunarvarnarbúnaður í farartækjunum er ekki kannaður og nagladekkjanotkun fram yfir leyfilegan tíma er ekki sektað. Í mörgum löndum í Evrópu er gripið til ráðstafana þegar mengunarmörkin fara upp fyrir ásættanlegan staðal, til dæmis með því að takmarka aksturinn á ákveðnum dögum fyrir almenning. En svona lagað er sennilega óhugsandi hér á landi. Viðkvæmir einstaklingar eiga bara að halda sig heima, basta!