Borgarfulltrúar sem sitja í meirihluta og æðstu stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur ættu að grípa tækifærið og bjóða dótturfélagið Ljósleiðarann, áður Gagnaveitu Reykjavíkur, til sölu í ljósi þess að erlendir fjárfestar eru reiðubúnir til að greiða gott verð fyrir keppinautinn Mílu.

Æskilegt væri ef Reykjavík, stærsti hluthafi Orkuveitunnar, myndi nýta fjármagnið til að grynnka á skuldum sem hafa farið vaxandi um árabil, sama hvernig viðrar í efnahagslífinu. Borgin stóð höllum fæti þegar Covid-19 heimsfaraldurinn reið yfir og glímir við verulegan hallarekstur.

Míla verður mun skæðari keppinautur eftir að eignarhaldið hefur verið skilið frá Símanum. Annars vegar er stefnt að því að Míla auki fjárfestingar í rekstri umtalsvert á næstu árum með nýjum eigendum í fararbroddi. Það ætti að hafa í för með sér að fleiri horfi til þess að eiga í viðskiptum við fyrirtækið. Hins vegar mun helstu keppinautum Símans, Vodafone og Nova, hugnast betur samstarf við Mílu þegar fyrirtækið er ekki í eigu samkeppnisaðila. Þessir þættir gera eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur á Ljósleiðaranum áhættusamari eftir söluna á Mílu, það er að segja, hætta er á að hópur viðskiptavina fyrirtækisins færi sig til keppinautar. Borgarbúar og aðrir skattgreiðendur sem standa að baki Orkuveitunni eiga ekki að axla þá fjárhagslegu áhættu. Það eru engin haldbær rök fyrir því að hið opinberi eigi fjarskiptafélag í samkeppni við einkaaðila. Aftur á móti eru góð rök fyrir sölu á fyrirtækinu.

Ef það tekst að fá tvo erlenda innviðasjóði að fjarskiptafyrirtækjum, eins og í tilviki Mílu, væri það mikill akkur fyrir Ísland. Hingað myndi streyma aukin fagþekking, fjármagn og áhættu yrði dreift á fleiri herðar. Erlend fjárfesting skiptir lítið einsleit hagkerfi miklu máli og stuðlar að hagvexti, stöðugleika og aukinni framleiðni.