Það kostar marg­falt meira að kveikja ljós í eld­húsinu hjá vini mínum í Stranda­byggð en heima á Akra­nesi. Er á þessu ein­hver skyn­sam­leg og sann­gjörn skýring? Nei, ekki þegar um er að ræða sjálf­sagða grunn­þörf hvers heimilis í nú­tíma­sam­fé­lagi.

Lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raf­orku tóku gildi árið 2004 og áttu að jafna í stórum dráttum verð á raf­orku til not­endanna sem búa vítt og breitt um landið.

Þetta mark­mið um jöfnuð á flutnings- og dreifi­kostnaði hefur engan veginn náðst. Síðasta ára­tug hefur bilið þvert á móti stöðugt aukist og mis­munað í­búum lands­byggðar með stór­felldum hætti. Gjald­skrár í dreif býli hafa hækkað ört miðað við hækkanir í þétt­býli sem leitt hefur til þess að bilið milli dýrasta þétt­býlis og meðal­verðs í dreif býli hefur aukist háska­lega og kostnaðar­munur nemur nú jafn­vel 60%.

Ein sam­ræmd gjald­skrá fyrir alla lands­menn er eðli­leg réttar­bót fyrir íbúa lands­byggðar sem á sviði orku­mála standa mjög höllum fæti á köldum svæðum. Auk þess búa þeir við tíðari raf­magns­truflanir en flestir þétt­býlis­staðir – og hvað segir þessi hrópandi mis­munun um ný­sköpunar­mögu­leika á lands­byggðinni?

Í ljósi þess að upp­spretta raf­orku er vítt og breitt um landið er sjálf­sögð krafa að þessi sam­eigin­lega auð­lind nýtist lands­mönnum á sam­ræmdum kostnaðar­legum for­sendum, hvar sem þeir eru í sveit settir. Í dag ríkir sláandi ó­jafn­ræði milli dreif býlis og þétt­býlis.

Það eru yfir­lýst mark­mið stjórn­valda að jafna eins og kostur er bú­setu­skil­yrði um land allt en þetta eru bara orðin tóm. Með sam­ræmingu raf­orku­verðs yrði hins vegar stigið raun­veru­legt skref í þá átt, bæði hvað varðar ein­stak­linga, fjöl­skyldur og at­vinnu­starf­semi sem býr að flestu leyti við erfiðari skil­yrði en á þétt­býlli svæðum.

Margir muna enn eftir þeim tímum þegar mikill ó­jöfnuður ríkti varðandi síma­notkun og skrefa­talningu þegar lang­línu­sam­töl giltu fyrir lands­byggðina. Þetta var af­numið með lögum á Al­þingi síðla árs 1996. Eftir það hefur gjald fyrir tal­síma­þjónustu verið óháð bú­setu og inn­heimta sér­staks á­lags vegna lang­línu­sím­tala ó­heimil. Þannig á þetta líka að vera varðandi um­gjörð raf­orku­mála og það eru nokkrar leiðir að þessu marki. Þing­flokkur Sam­fylkingarinnar mun beita sér í þessu efni á komandi þingi.

Það er sjálf­sögð rétt­lætiskrafa að lífs­kjör þjóðarinnar séu sem jöfnust óháð bú­setu. Í þeim til­gangi þarf að tryggja eins og kostur er að al­gengustu lífs­nauð­synjar og al­menn þjónusta standi til boða á sama verði hvar sem er á landinu. Raf­orka á ekki að vera þar undan­skilin.