Eins og ég hef stundum greint frá, flutti ég með fjölskyldunni – eiginkonu og fjórum fjórfættum sonum, þeir þrír tvífættu voru flognir úr hreiðrinu – til Þýzkalands 1989.

Stuttu eftir að við höfðum komið okkur fyrir þar, keyrði ég frúna í búð, þar sem okkur vantaði eitthvert smáræði. Ég er enginn sérstakur búðarmaður, og beið því bara í bílnum. Með bílinn í gangi, af gömlum og góðum íslenzkum vana.

Eldri maður, vingjarnlegur og kurteis, bankaði þá lauslega í bílrúðuna hjá mér, sem ég opnaði auðvitað með bros á vör. Ávarpaði hann mig með „Guten Tag, der Herr“, „Góðan dag, herra minn“, og sagði svo „Fyrirgefðu, það er bannað að vera með bíl í lausagangi“. „Nú er það?“ svaraði ég hálf hlessa.

Hvað var maðurinn eiginlega að fara? Hvers konar afskiptasemi var þetta eiginlega?

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, og hafa menn áttað sig á ýmsu og lært nokkuð.

Auðvitað var loftmengun líka mál 1989, margir áttuðu sig bara ekki á því, hvað þá, að menn gerðu eitthvað í því. Undirritaður var ekki meðal ósyndugra.

Annað dæmi: Þegar maður beið við járnbrautarteina, meðan lest fór hjá, átti skilyrðislaust að drepa á bílnum.

Þar og þá var líka bannað, að aka á nagladekkjum. Þrátt fyrir svipaða vetrarveðráttu í Hamborg og hér, komumst við hjónin þó hjá óhöppum, slysum og öðrum vandræðum í umferðinni, á venjulegum vetrardekkjum, í 27 ár.

Ég hef aldrei skilið nagladekkjaæðið hér.

Heim til Íslands og í nútímann: Fyrir nokkru var ég í mínum morgunæfingum. Bý við nokkra umferðargötu. Var með bæði svalahurð og glugga opna. Út að götu. Vildi njóta ferska loftsins við andlegt og líkamlegt puðið.

Þá kom þar að stór rúta, og lagði beint fyrir fram hjá okkur. Eitt var hávaðinn í bílnum, sem truflaði mig nokkuð í hugleiðslunni, en annað og verra var dísilstækjan, sem smám saman flæddi inn í íbúðina, eins og þokulæða í dalbotn.

Bílstjórinn hafði sem sagt ekki fyrir því, að drepa á bílnum. Eftir nokkrar mínútur var stofan orðin full af dísilfýlunni, ég kominn úr stuði í mikilvægum æfingunum, auðvitað búinn að loka hurð og gluggum, en of seint.

Alls stóð rútan þarna í um 15 mínútur, í blíðskaparveðri, alltaf í gangi.

Eftir þetta hef ég fylgst nokkuð með bílum og bílstjórum, sem leggja í götunni hjá mér og annars staðar.

Ef menn sitja í bílnum, og eru að bíða eftir einhverju eða einhverjum – tíma hjá lækni eða sjúkraþjálfa, viðtali við lögfræðing, tannfyllingu eða tanndrætti hjá tannlækni eða bara eftir því, að einhver komi inn í bílinn til þeirra, kannske eiginkonan úr búð, eins og hjá mér, eða tengdó til að passa krakkana – þá bíða menn bara rólegir; með bílinn í gangi.

Safnast, þegar saman kemur, gleymist hér alveg, en auðvitað er þetta mest hugsunarleysi. Ekki er það ásetningur góðra manna að eitra blessað loftið að óþörfu. Versti þátturinn mun þó vera nagladekkjaæðið, sem er leyfilegt æði og stutt af lögreglu, sem framlengir gjarnan leyfilegan notkunartíma, reyndar án heimildar.

Yfir í símanotkun við akstur, þá mætti ég þremur bílum á Egilsgötunni fyrir nokkru, bara á kaflanum milli Snorrabrautar og Barónsstígs, þar sem ökumenn voru allir galvaskir og hressir að tala í símann. Við þessu eiga víst með réttu að vera háar sektir, því svona aksturslag getur skapað stórfellda slysahættu, ekki bara fyrir málglaðan símanotanda, heldur líka fyrir aðra, sem álpast út í þessa umferð, með öllu þessu símaglaða fólki.

Hvernig gat það eiginlega lifað, áður en farsímar komu til sögunnar!? Og, hvernig má það vera, að allt þetta símasnakk í bílum viðgangist, þrátt fyrir gildandi boð og bönn?

Skýringin virðist einföld: Hér sést nánast aldrei nokkur lögreglumaður í eftirliti í umferðinni, að leita að einum væri nánast eins og að leita að útilegumanni í Esjunni.

Þetta vita allir og menn fara því bara sínu fram; í símtölum, hraða, bjórdrykkju fyrir akstur, nagladekkjaakstri eftir tíma og öðru atferli. Lausagangur er ekki bannaður, þykir bara fínn.

Það er ágizkun undirritaðs, að, ef 5-10 lögreglumenn væru settir í að fylgjast með því, sem er þó bannað, og kærðu fyrir margvísleg umferðarlagabrot, hér á höfuðborgarsvæðinu, gætu sektir borgað laun 5-10 lögreglumanna til viðbótar, og, það, sem meira væri, stóraukið öryggi og velferð í umferðinni.