Einu sinni heyrði ég um mann að hann léti ekki góða fýlu framhjá sér fara. Það var alltaf hundur í honum og maðurinn skemmtilegur eftir því. Eftir margra ára vangaveltur er lærð niðurstaða mín að ekkert geti skýrt fýluna betur en að maðurinn var svangur. Fastur í einhverjum lífsstílnum.

En við lifum í samfélagi þar sem svengdin telst dyggð, þó að henni fylgi fýla og leiðindi. Við lifum í samfélagi þar sem fólk lætur hafa eftir sér opinberlega að uppáhaldsdrykkur þeirra sé vatn og að það besta sem það fær á morgnana sé hakkað spínat. Þetta fólk heldur því líka fram að það vilji helst ekki sofa. Fólk vill vakna svangt, vera svangt allan daginn og sofna svangt en segist njóta sem pirraðasta útgáfan af sjálfri sér. Vitleysan fær að vaða uppi. Fyrir vikið er fólk hætt að fela áfengi inni í skápum heldur mat. Skúffurnar í skrifborðinu í vinnunni geyma ekki lengur vinnupappíra. Þær fela nammið sem halda geðinu gangandi. Og í skúffinni býr skömmin.

Ég er glöð ef ég er bara nógu södd og líka mun minna glöð ef ég er svöng. Þess vegna læt ég það helst ekki henda. Ég veit að ég er ekki ein hér. Er boðið upp á mat brúðkaupsveislum vegna þess að fólk getur ekki borðað heima hjá sér? Eru heitir réttir með skinku og aspas í öllum betri barnaafmælum af því að afmælisbarnið heimtar það? Nei, það hefur með væntumþykju til gestanna að gera sem mæta á laugardegi til einhvers afmælisbarns, sem einhver annar á. Og er ekki hjartað í fermingarveislunni alltaf brauðtertan?

Í aðdraganda aðventu og jóla dálítið fer málstaður lífsglaða fólksins loks á dagskrá, fólksins sem elskar reykt kjöt, er sjúkt í sykraðar kartöflur og rjómalagaðar sósur og fer kannski ekki endilega á taugum yfir stuttu innliti á bráðamóttöku í kjölfarið. Það er ekki eins og við séum með hjartaflökt á bráðamóttöku alla daga. Vandaður undirbúningur jólahalds felst eðlilega í því að teikna upp þéttvaxið net jólaboða, ákveða hvaða hugmyndafræði eigi að vinna með í röðum á hlaðborðunum og auðvitað að muna að gefa af sér. Til dæmis að kenna öðrum þann skóla að fara alltaf með nýjan disk í röðina, aldrei að flagga fyrri ferðum.

Því þannig kveðjum við fýluna og leiðindin, saman sem samfélag.