Florence Widdicombe, sex ára breskrar stúlku, biðu óvænt skilaboð í pakka af jólakortum sem hún hugðist senda vinum sínum um jólin. Kortin höfðu foreldrar hennar keypt í stórmarkaðnum Tesco og voru þau skreytt mynd af ketti með jólasveinahúfu á höfðinu. Þegar Florence hófst handa við jólakortaskrifin uppgötvaði hún sér til furðu að eitt kortanna hafði þegar verið fyllt út. Í kortinu voru skilaboð frá fanga í kínverskum þrælkunarbúðum: „Við erum erlendir fangar í Qingpu-fangelsinu í Shanghai í Kína. Við erum þvingaðir í þrældóm. Gerðu það hjálpaðu okkur og láttu mannréttindasamtök vita. Hafðu upp á hr. Peter Humphrey.“

Faðir Florence hélt í fyrstu að um hrekk væri að ræða. En þegar hann fann á netinu frétt um breskan blaðamann, Peter Humphrey, sem hafði verið fangi í umræddu fangelsi vissi hann að alvara var á ferðum. Hann fann Humphrey.

Humphrey hafði verið handtekinn þegar hann rannsakaði fjársvik stórfyrirtækja í Kína og fangelsaður án réttarhalda í tvö ár. Hann var enn í sambandi við fyrrverandi samfanga. Þeir lögðust í rannsóknarvinnu og komust að því að aðstæður í fangelsinu höfðu snarversnað eftir að kínversk stjórnvöld tóku í auknum mæli að gera fangelsi landsins að tekjulindum fyrir sig með því að þvinga fanga til að vinna fyrir helstu nauðsynjum. Fyrrverandi fangar staðfestu að þeir höfðu unnið við vörur fyrir Tesco sem og önnur alþjóðleg fyrirtæki.

Tesco brást hratt við málinu. „Við erum miður okkar,“ sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. „Við höfum andstyggð á hegningarvinnu og líðum ekki slíkt í aðfangakeðju okkar.“ Kortin voru tekin úr sölu. Um síðustu helgi bárust fréttir af því að Tesco hefði lokið rannsókn á málinu og verslunin væri hætt öllum viðskiptum við verktakann, fyrirtæki í Kína, sem framleiddi kortin.

Féll úr stiga

Síðastliðinn þriðjudag mátti lesa á forsíðu Fréttablaðsins frétt um Bosníumann sem hyggst höfða mál gegn fasteignafélaginu H-26 á Akureyri vegna vangoldinna launa og líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi. Maðurinn, Radenko Stanisic, kom til Íslands í febrúar í fyrra eftir að hafa fengið tilboð um vinnu hér á landi. Hinn 27. mars stóð Stanisic í stiga og festi handrið á svalir. Hann féll niður og var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann gekkst undir aðgerð. Við útskrift af spítalanum ók verkstjóri hans honum suður á Keflavíkurflugvöll þar sem hann var sendur með flugvél úr landi.

Fyrir þær sjö vikur sem Stanisic starfaði á Íslandi í tíu tíma á dag, sex daga vikunnar fékk hann greiddar 165.000 krónur. Hann er enn óvinnufær eftir slysið.

Fasteignafélagið H-26 þvær hins vegar hendur sínar af manninum. Félagið hafnaði nýverið kröfu Stanisic um bætur og greiðslu vegna vangoldinna launa. Segir það Stanisic ekki hafa verið starfsmann félagsins – félagið hafi aldrei átt samskipti við hann og ekki gert honum atvinnutilboð – heldur hafi Stanisic verið starfsmaður undirverktaka í Serbíu. Öryggismál hafi verið á ábyrgð undirverktakans og það sé því ekki við fasteignafélagið að sakast að starfsmenn störfuðu við verk ótryggðir og án atvinnuleyfis.

Tesco átti aldrei „í samskiptum“ við fangana í Shanghai. Fyrirtækið „gerði þeim aldrei atvinnutilboð“ og þeir voru aldrei „starfsmenn félagsins“. Engu að síður ber Tesco ábyrgð á eigin starfsemi, aðfangakeðju, vali á verktökum og þar með undirverktökum.

Hvort H-26 beri lagalega ábyrgð á afdrifum manns sem lagar fyrir það svalahandrið mun koma í ljós síðar. Siðferðileg ábyrgð liggur þó þegar í augum uppi. Viðbrögð forsvarsmanna H-26 eru landi og þjóð til skammar. Er það svona lítils sem við metum líf farandverkafólks sem hér starfar – við látum eins og það komi okkur ekki við?