Er æskilegt að lífið sé laust við allt mótlæti? Þjóðfélagsumræða um sum lagafrumvörp er nokkuð yfirborðskennd. Rætt er um tæknileg atriði og hin ýmsu hagrænu áhrif sem breytingunum fylgja en minna fer fyrir umræðu um gildin og samfélagssýnina sem búa að baki. Þetta á sérstaklega við hlutdeildarlán félagsmálaráðherra sem hafa nýlega hlotið brautargengi á Alþingi.

Ekki misskilja mig sem svo að hagrænu áhrifin skipti engu máli. Varasamt er að auðvelda lántöku á sama tíma og vextir eru í sögulegu lágmarki. Það er ekki að ástæðulausu að Seðlabankinn minnti á gömlu 90 prósenta lánin og afleiðingar þeirra í umsögn sinni um frumvarpið. Hlutdeildarlánin munu án efa skapa meiri spennu á húsnæðismarkaði. En í þessum efnum þarf að huga að fleiru.

Séreignarsamfélagið, þar sem millistétt og tekjulægri njóta búsetuöryggis og eignamyndunar, er eftirsóknarvert af ýmsum ástæðum. Ein er sú að slíkt samfélag gerir manneskjunni kleift að uppfylla hina aldagömlu þrá eftir því að eiga fremur en að leigja. Önnur ástæða er að séreignarsamfélagið elur af sér tvær mikilvægar dyggðir: eljusemi og sparsemi. Það er reisn yfir því að kaupa fasteign eftir að hafa lagt hart að sér í vinnu og neitað sjálfum sér um efnisleg gæði.

Hlutdeildarlán virka þannig að ríkið veitir 20 prósenta lán á hagstæðum kjörum á móti einungis fimm prósenta eiginfjárframlagi lántaka.

Þetta frumvarp afhjúpar lítilfenglega sýn á mannlegt samfélag. Skilaboðin eru þessi: Ef þú uppfyllir vesældarskilyrði ráðuneytisins þá þarftu ekki að vinna bug á aðstæðum þínum með eljusemi og sparsemi. Þú þarft ekki að þróa með þér öfundsverð persónueinkenni til þess að ná háleitu markmiði. Farðu auðveldu leiðina og skráðu þig í ríkisprógrammið.

Hlutdeildarlánin svala þorsta samtímans í að fá allt sem allra fyrst.

Ekki er þar með sagt að ríkið hafi engu hlutverki að gegna. Sannarlega geta skapast aðstæður, bæði í þjóðlífi og atvinnulífi, sem krefjast inngripa af hálfu ríkisins. Vandinn er sá að margir stjórnmálamenn starfa eftir sömu lögmálum og gilda um straum. Þeir leita leiðar hins minnsta viðnáms.

Þegar hagsmunahópar búa til vanda úr engu hafa ráðherrar málaflokksins ekki í sér að andmæla. Og ef vandinn er vissulega til staðar hafa þeir ekki kjark til þess að ráðast á rótina. Framboðsskortur á húsnæðismarkaði leiðir til frumvarps um sérstök ríkislán. Umsvif Ríkisútvarpsins leiða til þess að einkareknir fjölmiðlar eru gerðir að bótaþegum. Og svo framvegis.

Þetta er ávísun á þróttlítið og veikburða samfélag.