Líkt og fleiri landsmenn lögðum við hjónin land undir fót um síðastliðna helgi. Í fyrsta stoppinu skammt frá höfuðborginni hitti ég fyrrverandi samstarfskonu og tókum við að spjalla.

Þá kemur maðurinn hennar aðvífandi og segir: „Já, ég veit hver þú ert, þú ert læknir.“ Þá segir konan: „Já, hún fékk þig til að hætta að reykja.“

Þegar þar var komið sögu hugsaði ég með mér að ég hefði þarna væntanlega náð að snúa manninum með hetjulegri ræðu.

Til að rifja upp tilfellið sem var fallið í gleymsku spyr ég manninn hvernig það hafi atvikast. Þá verður hann vandræðalegur og konan reynir að snúa út úr með því að beina athyglinni annað. Nú jókst forvitnin og hvet ég manninn til frásagnar.

Þá segir hann án þess að líta upp: „Já, það kom nú til þannig, að ég kom fyrir mörgum árum á læknastofuna til þín með kvef.

Þú hlustaðir mig og þar sem ég reykti vildir þú taka lungnamynd. Þú hélst að ég væri kominn með lungnakrabbamein. Það var smá bras að taka myndina, hún heppnaðist ekki í fyrstu.

Seinni myndin var skýrari og þú horfðir á hana um stund og sagðir svo: „Þú ert með lítið hjarta.“ Ég spurði út í litla hjartað – hugsaði með mér hvort ég væri með öllu kjarklaus – og fékk þá skýringu að lítið væri gott, því það væri betra en stórt, allavega á röntgenmynd.“

Svo var hlegið eftir þessa frásögn.

Maðurinn með litla hjartað var fórnarlamb nýútskrifaðs læknis sem hafði séð of mikið af lungnakrabbameini og stækkuðum hjörtum á röntgenmyndum háskólaspítalans.

Eftir þessa lífsreynslu hafði maðurinn ekki þorað að snerta aftur sígarettu. Og ef hann lenti í krefjandi aðstæðum þá gat hann allavega svarað því til að læknir hefði staðfest að hann væri með lítið hjarta.