Sem barn stundaði ég engar íþróttir aðrar en skíði. Að ganga fannst mér eitthvað það tilgangslausasta og leiðinlegasta sem nokkur maður gat gert. Síðan líður tíminn og maður þroskast líkamlega og ekki síður andlega. Með hækkandi aldri og opnum huga þá áttar maður sig á ýmsu og þá kannski helst því að íþróttir eru alls ekki eins slæmar og maður var sannfærður um.

Ég komst líka að því að besta leiðin til að ná vellíðan og slökun væri að erfiða og hreyfa sig rösklega. Hægt og rólega hafa þessi sannindi fengið stærra og stærra hlutverk í lífi mínu. Skoðandi samfélagsmiðla mína virðist mér að eins sé ástatt um marga miðaldra vini mína, þar sem flestallir eru hreyfandi sig af miklum móð. Hallærislegir hlutir eins og gönguskíði, sem manni hefði aldrei dottið í hug að gætu orðið hluti af lífi manns, veita manni í dag mikla gleði og fylla tilhlökkun. Síðan lokar allt síðastliðið vor og ég neyðist til þess að fá einhverja hreyfingu og úr varð að ég fór að hlaupa. Stærsti gallinn við hlaup eru samt þau að stoðkerfi manns tekur lengri tíma að styrkjast en þol og lungu.

Því hef ég þurft að leita til sjúkraþjálfara með eymsli sem fylgt hafa auknum hlaupum. Ég trúði samt ekki mínum eigin eyrum þegar hann hrósaði mér fyrir hreyfingarleysi æskuáranna. Fólk sem hefði æft eins og brjálað væri sem börn, væru reglulegir kúnnar hjá honum með slitna liði og sinar á miðjum aldri. Hann hrósaði mér og sagði að líkama mínum mætti líkja við gamlan bíl, sem aðeins væri búið að keyra sáralítið, lakkið léti kannski á sjá en demparar, dekk og vél ættu nóg eftir. Ég þakkaði sjálfum mér samstundis fyrir að hafa hugsað svona vel um mig í æsku.