Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu (nr. 40/2007), lögum um réttindi sjúklinga (nr. 74/1997) og lögum um sjúkratryggingar (nr. 112/2008) er kveðið á um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og annarri stöðu þess sem fær þjónustuna. Nú er það svo að landfræðilegar ástæður geta einmitt skekkt stöðu fólks efnahagslega og á annan hátt.

Það á t.d. við gagnvart heilbrigðisþjónustu. En undanfarin ár hefur hluta af þessum hindrunum verið rutt úr vegi og svokölluð fjarþjónusta hefur rutt sér til rúms og náð að jafna aðstöðu fólks sem á einhvern hátt getur ekki nýtt sér staðþjónustu sem í boði er yfirleitt eingöngu í Reykjavík og í örfáum tilfellum á stærri þéttbýlisstöðum landsins.

Þannig hefur SÁÁ þróað fjarþjónustu fyrir fólk með fíknisjúkdóm og aðstandendur þess. SÁÁ hefur notið góðrar samvinnu við Kara Connect sem býður upp á tæknilausnir, sem uppfylla allar kröfur og öryggisstaðla Landlæknisembættisins. Þessi þjónusta gagnast fólki með fíknisjúkdóma sem býr ekki í eða við Reykjavík eða á eða við Akureyri þar sem SÁÁ rekur göngudeildir með staðþjónustu.

Aðstandendur þessa fólks geta einnig fengið fjarþjónustu sambærilega þeirri sem veitt er í staðþjónustu.

Það er því í meira lagi undarlegt að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) neita beinlínis að greiða fyrir þessa þjónustu. Undarlegt þegar ofangreind lög eru lesin, því með afstöðu sinni brýtur SÍ þvert gegn markmiðum þessara laga og þar með er SÍ orðið lögbrjótur sem heilbrigðisráðherra ætti að minnsta kosti að kalla á beinið ef ekki stefna þeim fyrir dómstóla.

Með afstöðu sinni vinna SÍ gegn vernd á andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði landsmanna, vinna gegn almennum mannréttindum og mannhelgi og veikja réttarstöðu sjúklinga á Íslandi. Með afstöðu sinni vinnur SÍ gegn því að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Sjúkratryggingar Íslands gera sér ekki grein fyrir þeim fordómum og tortryggni sem þær ala á, gera sér ekki grein fyrir þeim þjáningum sem þær valda beint og óbeint og virða ekki hlutverk sitt að gæta hagsmuna þeirra sem þjónustuna eiga að fá. SÍ leikur þann leik að mismuna því fólki sem á sér fáa málsvara og getur illa beitt sér til að viðhalda réttindum sínum.

Nú getur yfirstjórn SÍ auðvitað slegið þann fyrirvara að hún greiði ekkert nema samkvæmt samningum við þá sem veita þjónustuna. Þó það nú væri. En sá fyrirsláttur missir marks þegar sama yfirstjórn SÍ hefur dregið það í yfir 20 mánuði að ganga til samninga við SÁÁ um þjónustuna. Allan tímann hefur SÁÁ ítrekað, reglubundið, nauðsyn þess að ljúka þessu ferli.

Það verður auðvitað að taka með í reikninginn að samningaferli um þetta atriði er ekki mjög flókið, vegna þess að til er samningur milli aðila sem kveður á um sams konar þjónustu í staðþjónustu. Eina sem þarf að gera er að bæta inn í samninginn orðunum „og fjarþjónusta sem veitt er samkvæmt stöðlum Landlæknisembættisins“.

Er til of mikils mælst að yfirstjórn Sjúkratrygginga Íslands gangist við ábyrgð sinni?