Seðlabankinn sendi skýr skilaboð í síðustu viku um að gengisveiking íslensku krónunnar það sem af er ári væri orðin óhófleg. Fréttatilkynning bankans um að hann myndi hefja reglulega sölu á gjaldeyri í þessari viku bar öll þess merki en eitt af markmiðum aðgerðarinnar er að bæta verðmyndun á gjaldeyrismarkaði. Þá var fundargerð peningastefnunefndar fyrir ágúst einnig birt sama dag og reyndist niðurstaðan úr gjaldeyrisumræðum nefndarinnar vera að raungengi krónunnar væri komið undir jafnvægisgildi sitt. Seðlabankastjóri steig síðan fram degi síðar og lýsti því yfir að gengi krónunnar væri einfaldlega orðið mjög lágt og úr takti við grunnþætti íslenska hagkerfisins.

Í ljósi tíðra inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á þessu ári – bankinn hefur í dögum talið stigið þrisvar sinnum oftar inn á markaðinn í samanburði við 2019 og verið mjög virkur síðasta mánuðinn – má líta á aðgerðir hans í síðustu viku sem nokkurs konar útvíkkun á þeirri stefnu sem þegar hafði verið mörkuð. Engu að síður er ljóst að Seðlabankinn hefur nú ákveðið að draga línu í sandinn varðandi eigin þolmörk um frekari veikingu krónunnar. Samstillt og stigmagnandi inngrip í orði og á borði bera vott um það.

Þrjár spurningar vakna af þessu tilefni. Í fyrsta lagi má spyrja hvort gengið sé í raun og veru of lágt. Í öðru lagi hvað sé að valda auknu óþoli Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu. Í þriðja lagi hver sé líkleg þróun krónunnar næstu ársfjórðunga.

Ein nálgun við mat á misgengi er að bera saman raungengið við langtímameðaltal og áætla þannig hvort frávikið bendi til sterkrar eða veikrar krónu. Með slíkri nálgun fæst að raungengið var í ágúst um 3% lægra en meðaltal síðasta aldarfjórðungs en það getur varla talist óhóflega veik króna í núverandi efnahagsástandi. Vissulega eru grunnstoðir hagkerfisins sterkari í dag heldur en oft áður en til samanburðar má nefna að raungengið var að jafnaði 15% til 30% lægra en fyrrnefnt meðaltalsgildi frá haustinu 2008 til ársloka 2013.

Það bendir allt til þess að veikingarfasa krónunnar sé að mestu lokið á þessari stundu

Óþol gagnvart frekari gengisveikingu verður því ekki skrifað á raungengið eitt og sér en þegar það er sett í samhengi við nýlega verðbólguþróun verður heildarmyndin skýrari. Verðbólguáhrifin af veikari krónu hafa þannig reynst þróttmeiri en gert var ráð fyrir og situr verðbólgan nú í 3,2% sem er þó nokkuð yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólguspá bankans til loka þessa árs var einnig færð upp um 0,6% prósentustig í ágúst á meðan sögulega lágir vextir eru að valda snörpum hækkunum á húsnæðisverði. Óþol Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu er því birtingarmynd af áhyggjum hans af verðbólguþróuninni.

Opinská orðræðuinngrip ásamt kerfisbundnum inngripum á gjaldeyrismarkaði til að leggjast gegn skammtíma- og langtímasveiflum sýna því að krónan er stýritækið sem Seðlabankinn hyggst beita til að kveða niður verðbólguþrýstinginn. Til að þessi stefna sé trúverðug þarf að fylgja henni eftir af krafti og koma í veg fyrir að gengið veikist frekar frá þeim gildum þar sem línan var dregin í sandinn. Ótímabærar vaxtahækkanir gætu annars þurft að líta dagsins ljós ef eftirfylgnin er af hálfum huga og verðbólgan reynist þrálát yfir markmiði. Seðlabankanum er hins vegar ekkert til fyrirstöðu við trúverðuga framkvæmd á þessari stefnu þar sem að tröllvaxinn gjaldeyrisforði bankans styður kröftuglega við hana.

Það bendir því allt til þess að veikingarfasa krónunnar sé að mestu lokið á þessari stundu og þegar litið er til næstu ársfjórðunga eru sviðsmyndirnar auk þess að mestu ósamhverfar og hneigðar til styrkingar. Vandamál hagkerfisins eru vel þekkt á þessari stundu en viðspyrnan gæti orðið öflug og þungri byrði þannig létt af krónunni ef þróun bóluefnis við COVID-19 kemst yfir marklínuna á komandi ári líkt og væntingar eru um.

Höfundur er sérfræðingur hjá Akta sjóðum.