Það er ekkert hægt að gera lengur“ heyrist gjarnan þegar fólk hefur greinst með langvinnan og alvarlegan ólæknandi sjúkdóm eða hefur átt við alvarleg veikindi að stríða um ákveðinn tíma. Verið er að tjá þann veruleika að sjúkdómurinn sé það langt genginn að engin meðferð standi lengur til boða og að dauðinn sé á næsta leiti.

Við sem störfum innan líknarmeðferðar upplifum að misskilnings gæti stundum um fagið en líknarmeðferð er mun meira en meðferð við lok lífs og auk þess er ávallt eitthvað hægt að gera, raunar mjög margt.

Heildræn nálgun og þverfagleg þjónusta

Líknarmeðferð er nálgun þar sem lögð er áhersla á að bæta líðan og lífsgæði einstaklinga sem glíma við lífsógnandi sjúkdóma. Meðferðin er heildræn sem þýðir að þar sé ætíð verið að sinna líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum þáttum í lífi manneskjunnar. Til þess þarf þverfaglegt teymi sem metur þarfir og einkenni fólks, þjónustan sniðin að þörfum hvers og eins og fólki mætt þar sem það er statt í sínu sjúkdómsferli.

Markmiðið er að lágmarka einkenni sjúkdómsins þannig að lífsgæðin verði eins góð og mögulegt er þrátt fyrir að ekki sé hægt að lækna. Um leið er áhersla lögð á að manneskjan er tengslavera og því sé grundvallaratriði að mæta fjölskyldu þess veika, því er talað um sjúklinginn og fjölskyldu hans sem meðferðareiningu.

Hverjir þurfa á líknarmeðferð að halda?

Langflestir þeirra sem nú njóta þjónustu líknameðferðar eru, bæði á Íslandi og á alþjóðavísu, einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein. Þörfin er þó mikil hjá mun stærri hópi.

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru um 40 milljónir einstaklinga á ári hverju í þörf fyrir líknarmeðferð og með hækkandi hlutfalli aldraðra er ljóst að þessi tala muni ekki lækka. Þó eru einungis tæplega 15% þessara einstaklinga sem njóta líknarþjónustu og er misskipting mikil á milli landa og sums staðar einnig á milli samfélagshópa.

Þá er ljóst að stórir sjúklingahópar eru verulega vanmeðhöndlaðir en meirihlutinn af þeim sem metnir eru í þörf fyrir líknarmeðferð eru með hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig má nefna aðra sjúkdóma svo sem langvinna lungnasjúkdóma, nýrnabilun, lifrarbilun og taugasjúkdóma.

Líknarmeðferð snemma í sjúkdómsferlinu

Með nútímatækni og tilkomu nýrra lyfja hafa sjúkdómsferlin breyst og sjúkdómar sem áður fyrr voru álitnir dauðadómur má oftar í dag líta á sem króníska sjúkdóma sem fólk lifir lengi með, oft með mikla einkennabyrði. Því er mikilvægt að þessir einstaklingar fái þann stuðning og meðferð sem þeir þurfa til þess að geta áfram lifað innihaldsríku lífi við eins góða líðan og hægt er.

Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið að líknarmeðferð er hafin fyrr í sjúkdómsferli en áður var. Er hún þá veitt samhliða annarri lífslengjandi meðferð (t.d. krabbameinslyfjameðferð) og getur bætt útkomu verulega. Þegar sjúkdómur ágerist eykst gjarnan vægi líknarmeðferðar eftir því sem önnur meðferð víkur. Líknarmeðferð einskorðast því ekki við lok lífs heldur með því að veita hana fyrr og jafnvel fljótt eftir greiningu bætum við líðan og lífsgæði sjúklinga auk þess sem rannsóknir benda til þess að hún geti einnig bætt horfur.

Líknarmeðferð í íslensku samfélagi

Okkur þykir líknarmeðferð sjálfsagður hluti af heilbrigðisþjónustunni. Hér á landi hefur hún byggst upp í gegnum mikið grasrótarstarf og hugsjón fagfólks og áhugafólks. Engin heildstæð stefnumótun hefur verið til staðar en þó er nú loksins unnið að slíkri í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og er það mikið fagnaðarefni. Sístækkandi hópur starfar innan fagsins og líknarlækningar hafa til nokkurra ára verið viðurkennd sérfræðigrein í læknisfræði á Íslandi.

Alþjóðadagurinn 12. október ,,Mín meðferð, minn réttur

Aðgengi að líknarmeðferð er ekki sjálfsagður hluti af heilbrigðisþjónustu í öllum löndum.

Alþjóðadagur líknarmeðferðar er haldinn á ári hverju, að þessu sinni ber hann upp á laugardaginn 12. október og er yfirskriftin ,,Mín meðferð, minn réttur“.

Markmiðið er að vekja athygli á rétti fólks til líknarmeðferðar um allan heim. Hvatt er til samtals meðal almennings, heilbrigðisstarfsfólks og yfirvalda um það hvað felst í því að veikjast af lífsógnandi sjúkdómi

Það skiptir máli fyrir okkur sem samfélag að mæta þörfum fólks með lífsógnandi sjúkdóma og það skiptir svo sannarlega öllu máli fyrir viðkomandi sjúkling og fjölskyldu. Okkur ber að veita meðferð sem lágmarkar mannlega þjáningu og leggja áherslu á hvað hægt er að gera í aðstæðum sem oft virðast þannig að ,,það sé ekkert hægt að gera lengur“.

Arna Dögg Einarsdóttir er læknir, sérfræðingur í lyf- og líknarlækningum og varaformaður hjá Lífinu – Samtökum um líknarmeðferð

Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir er sjúkrahúsprestur og formaður hjá Lífinu – Samtökum um líknarmeðferð