Í síðustu viku fór fram aðalmeðferð í meiðyrðamáli Jóns Baldvins Hannibalssonar gegn dóttur hans Aldísi Schram, fjölmiðlamanninum Sigmari Guðmundssyni og RÚV vegna ummæla sem féllu í morgunútvarpi Rásar 2. Ekki ætla ég í þessari grein að fara í saumana á málinu sjálfu, heldur vekja máls á að það afhjúpar varhugaverða orðræðu.

Í málsvörn stefnanda er trúverðugleiki Aldísar dreginn í efa á grundvelli meintrar geðveiki hennar. Vegna geðhvarfasýki á hún að hafa spunnið upp ærumeiðandi og alvarlegar ásakanir á hendur stefnanda. Hefur hún haft mikið fyrir því að sanna geðheilbrigði sitt svo mark sé á henni tekið og hún fái áheyrn. Og eins og við vitum er fólk greint með hina og þessa geðsjúkdóma en fátíðara er að það sé greint heilt á geði.

Þessi umræða minnir óþægilega á forneskjulegan hugsunarhátt þegar einstaklingar sem ollu óþægindum voru stimplaðir geðveikir og teknir úr umferð. Staðreyndin er aftur á móti sú að þó manneskja sé greind með einhvers konar geðsjúkdóm verður hún þar með ekki óáreiðanleg um aldur og ævi og þaðan af síður lygari.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar og höfundur bókarinnar Vertu úlfur sem nú hefur lifnað við á fjölum Þjóðleikhússins, hefur margoft bent á þessi sannindi. Í viðtali undirritaðrar við hann í helgarblaði Fréttablaðsins nú í upphafi árs sagði Héðinn frá glímu sinni við geðhvörf en jafnframt hvernig samfélagið bregst við slíkri greiningu og gleymir henni ekki.

„Segjum sem svo að ég lifi í 80 ár og tíu prósent tímans sé ég með virka geðröskun. Níutíu prósent ævinnar er ég í svokölluðu normi, sem við vitum þó ekkert hvað er. Samt sem áður bý ég við þann möguleika alla ævina að dómgreind mín og skoðanir geta verið dregnar í efa á þeim forsendum.“ Þessi orð lét Héðinn hafa eftir sér í téðu viðtali.

Það er nefnilega staðreynd að geðsjúkdómsgreining límist frekar við einstaklinginn en þegar um önnur veikindi er að ræða. Sá sem greinist með krabbamein, undirgengst krabbameinsmeðferð og mælist laus við meinið er ekki kallaður krabbameinssjúklingur eftir sem áður. Þó er vitað að ákveðin hætta er á að krabbamein komi aftur upp hjá þeim sem áður hefur greinst.

Einstaklingur er ekki sjúklingur á meðan hann ekki er veikur og veikindi á geðinu gera manneskju ekki sjálfkrafa óáreiðanlega. Fjölmiðlamaðurinn Sigmar Guðmundsson sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að fjölmiðlar hefðu brugðist Aldísi með því að forðast að fjalla um mál hennar þar sem því hafi verið haldið fram að hún væri geðveik. Inn í það hafi fléttast ómeðvitaðir fordómar.

Í orðum hans kjarnast einmitt málið. Við verðum nefnilega öll að gæta þess í hvívetna að láta ekki glepjast af eigin ótta og fordómum.

Að veikjast á geði er ekki lífstíðardómur!