Ég rumskaði við að rúmið gekk til og hugsaði með mér hvort konan væri nú að bylta sér, sagði viðkunnanlegur viðmælandi í útvarpsviðtali í vikunni. Ekki fylgdi sögunni hvort byltur eiginkonunnar eigi það til að hafa viðlíka áhrif í rúminu og jarðskjálfti af stærðargráðu fimm!

Skjálftahrina á Reykjanesi hefur farið mikinn undanfarna daga. Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að jarðskjálfti myndast í kjölfar mikillar spennu í bergi sem brotnar þegar spennan fer yfir brotaþol þess. Það er nátengt flekahreyfingum jarðskorpunnar þar sem þeir nuddast saman og troðast hver á öðrum. Mikil orka losnar svo þegar bergið brotnar og dreifist orkan í allar áttir með bylgjum. Talið er að sumir jarðskjálftar geti valdið eldgosum.

Brotaþol mannsins er kannski ekki ósvipað. Þegar spenna mannsbrjóstsins brýst í gegnum þolmörk fara af stað bylgjur reiði, örvæntingar og ótta sem treður á öðrum.

Spenna móður og mannsbarna

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem móðir jörð spennist og skelfur í kjölfar neyðarástands, óróleika og spennu hjá okkur mannsbörnunum. Árið 1918 hófst með fimbulkulda og í júlí sama ár barst skæðasta heimsfarsótt allra tíma, spænska veikin, til landsins. Fyrri heimsstyrjöldin hafði geisað í fjögur ár og þá á vitorði sem versta stríð sem mannkynið hafði upplifað. Maður getur vart ímyndað sér hvernig ástatt var í sálarlífi samtímamanna. Síðar sama ár gaus Katla með einu mesta hlaupi frá landnámi.

Stökkvum til ársins 2008. Bankarnir hrundu og í janúar 2010 neitaði þáverandi forseti vor, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, að skrifa undir hinn umdeilda Icesave-samning. Reiði og ólga kraumaði í samfélaginu og aðeins tveimur vikum eftir að við gengum til þjóðaratkvæðagreiðslu um örlög skuldsetningar þjóðarinnar gaus Eyjafjallajökull sínu stærsta gosi frá landnámi.

Í bók sinni „Man's search for meaning“ veltir geðlæknirinn Viktor E. Frankl, sem var fangi í útrýmingarbúðum nasista, upp hvernig þjáning mótar lífið. Hægt sé að svipta manninn öllu nema einu, sem er að velja eigið viðhorf í öllum aðstæðum. Það sé þetta andlega frelsi – sem ekki er hægt að taka í burtu – sem gefur lífinu merkingu og tilgang. Ef það er tilgangur með lífinu, þá hljóti að vera tilgangur með þjáningu því þjáning er órjúfanlegur þáttur tilverunnar. Þeir fangar sem töpuðu andlega neistanum og hættu að lifa fyrir framtíðina urðu senn bráð búðanna. Fangar með undirliggjandi taugaveiki sem var ekki að hrjá þá sátu skyndilega uppi með minna mótvægi eftir að þeir glötuðu voninni. Lífið laut í lægra haldi.


Viktor vitnaði í orð þýska heimspekingsins Nietzsche: „Sá sem hefur ástæðu til að lifa getur þolað næstum hvaða lífsins þjáningu.“ Fangarnir þurftu að hafa ástæðu – markmið – fyrir tilveru sinni. Þeir urðu að skilja að það skipti ekki máli hverju þeir bjuggust við af lífinu heldur hverju lífið bjóst við af þeim.

Von

Árið 1918 var ekki alslæmt. Þá lauk fyrri heimsstyrjöldinni og við öðluðumst sjálfstæði frá Dönum. Ferðasamgöngur bættust til muna og læknisfræðin tók stórt stökk fram á við.

Frá 2010 fjölgaði ferðamönnum sem heimsóttu landið með hverju árinu til 2019 sem hjálpaði okkur að rétta úr efnahagnum og skapaði fjölda nýrra starfa eftir hámark atvinnuleysis í kreppunni. Ferðaparadísir byggðust upp um allt land sem nú bíða okkar til að njóta.

Árið 2020 er áskorun og kennir okkur mikilvæga lexíu. Það er enn von til að bjarga móður okkar allra, jörðinni, frá útrýmingu af okkar völdum. En ef viðkunnanlegi viðmælandinn væri minn maður ætti sá allavega von á skjálftahrinu af mínum völdum næstu daga.