Í þrjár vikur hafa tengdaforeldrar mínir, hjón á besta aldri frá Suður-Afríku, dvalið hjá okkur. Á hverju kvöldi í þrjár vikur hafa þau fylgst með himninum, vongóð um dansandi norðurljós. Verandi með lifandi streymi upplýsinga um sólgos og norðurljósaspár í símum var ólíklegt að þau myndu missa af dansinum. Í fjarveru miðnætursólar býður góður gestgjafi upp á almennileg norðurljós. Þegar ljósin voru virk sást ekki til þeirra fyrir skýjunum. Þegar skýjahulan lét sig hverfa fóru ljósin í felur.

Téð hjón hafa jafnframt verið dyggustu áhorfendur beinnar útsendingar eldgossins í Geldingadölum. Jútjúb hefur séð þeim fyrir eldspýjum í rauntíma í tvær klukkustundir á kvöldi, frá upphafi. Því var haldið í langferð. Þann 18. september tók eldgosið sér frí. Þann 23. september lentu háaldraðir en vongóðir ferðalangar á Keflavíkurflugvelli, eftir langt og lýjandi ferðalag með tilheyrandi grímum og PCR-prófum. Síðan hef ég farið inn á helstu fréttamiðla landsins að meðaltali fimmtíu sinnum á dag, í þeirri von að kvikan fyndi sína leið. Þá batt ég miklar vonir við jarðskjálftana suðvestur af Keili og notaði hin ýmsu smáforrit jarðskjálfta til að missa ekki af hreyfingum yfir tveimur á Richter.

En allt kom fyrir ekki. Mér tókst hvorki að bjóða upp á norðurljós né eldgos. Máttlitlir skjálftarnir björguðu því sem bjargað varð. Ég tengi auðmjúklega við líðan aðila í ferðaþjónustu. Ljósin, gosin og skjálftarnir eru sennilega eins og flestar aðrar lífsins gjafir. Þær birtast öðru hvoru en aldrei eftir pöntun. Sem er slæmt fyrir hagkerfið og örvæntingarfulla gestgjafa.